Björgvin Karl áttundi eftir annan dag

Björgvin Karl Guðmundsson eftir fyrstu þraut dagsins.
Björgvin Karl Guðmundsson eftir fyrstu þraut dagsins. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

Keppnisþrautunum þremur er nú lokið á heimsleikunum í crossfit í Madison í Wisconsin. Niðurskurðarhnífurinn hefur loks bitið á íslensku keppendunum, en Oddrún Eik Gylfadóttir lauk þátttöku eftir aðra þraut dagsins. Þá var keppendunum fækkað niður í 30, en á þeim tímapunkti var Oddrún í 39. sætinu.

Björgvin Karl Guðmundsson er í 8. sæti eftir dag tvö, eftir að hafa náð sextánda, nítjánda og níunda sæti í æfingum dagsins.

Fjórar dætur halda ótrauðar áfram inn í dag þrjú, en Annie Mist Þórisdótti er í 10. sæti eftir daginn, Þuríður Erla Helgadóttir er ellefta og svo eru þær Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í 15. og 20. sæti.

Ragnheiður Sara slapp þannig naumlega við niðurskurðinn, en einungis 20 keppendur fá að halda áfram á morgun.

Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

Önnur þrautin var mörgum erfið, en þar áttu keppendur að ýta þungum sleða eftir grasi rúma 52 metra, gera svo fjölda upphýfinga og ýta svo sleðanum til baka. Mikil þrekraun.

Þriðja þrautin var svo svokölluð AMRAP-æfing, þar sem keppendur áttu að gera eins margar endurtekningar af tilteknum æfingum og þeir mögulega gátu á 20 mínútum.

Ekkert hefur verið gefið út fyrir dagskrá morgundagsins, nema það að það verður tekið á sprett. Fyrsta æfingin verður sprettbraut og að henni lokinni munu einungis 10 karlar og 10 konur standa eftir í keppninni um nafnbótina hraustasta fólk í heimi.

Frá lokaæfingu dagsins.
Frá lokaæfingu dagsins. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson
mbl.is