Komu hvalnum á flot og út á haf

Grindhvalnum í Vogum á Vatnsleysuströnd hefur verið bjargað. Maður sem var á göngu kom auga á hvalinn í morgun og hafa íbúar á staðnum haldið honum blautum í dag á meðan þess var beðið að það flæddi að. Má gera ráð fyrir að hvalurinn hafi verið á þurru landi í um hálfan sólarhring. 

„Honum var bjargað bara núna fyrir hálftíma,“ segir Berglind Drífa Pétursdóttir, íbúi í Vogum. 

Voru það liðsmenn björgunarsveitarinnar á Vogum sem náðu að koma hvalnum á flot. 

„Þegar flæddi að náðu þeir að setja reipi undir hann og draga hann aðeins lengra út. Hann var mjög veikburða og var lengi að koma sér af hliðinni yfir á magann. Þá byrjaði hann að synda út en svo ætlaði hann bara strax aftur í land þannig að þeir voru á bátnum í einhvern tíma að reka hann lengra út,“ segir Berglind Drífa. 

Hér að neðan má sjá myndskeið af björgunaraðgerðunum. 

Attachment: "Hvalabjörgun" nr. 11189

Attachment: "Hvalabjörgun" nr. 11188

Grindhvalnum var bjargað nú í kvöld þegar flæddi að.
Grindhvalnum var bjargað nú í kvöld þegar flæddi að. Ljósmynd/Berglind Drífa
mbl.is