Eins hvals dauði er annars manns reður

14 grindhvalir drápust í fjörunni í Garði síðasta föstudag. Fáir …
14 grindhvalir drápust í fjörunni í Garði síðasta föstudag. Fáir voru karlarnir þar á meðal og ógerningur reyndist að ná að koma höndum yfir reður til að færa í safneign Reðasafnsins. mbl.is/Alfons

Hið íslenska reðasafn er tekið að lengja eftir grindhvalsreðri. Forstöðumaðurinn sendi mann á vettvang þegar vöðu rak á land í Garði á Reykjanesi síðasta föstudag en sá hafði ekki erindi sem erfiði.

„Það kom ekkert út úr því. Því miður. Það voru fá karldýr í þessum hóp. Þegar aðstoðarmann minn bar að var á flóði og eftir að fjaraði út komst hann ekki að karldýri til að hneppa reður,“ segir Hjörtur Gísli Sigurðsson, forstöðumaður safnsins, sem er til húsa á Laugavegi. 

Á safninu eru nú um stundir tveir reðrar af grindhvölum en þeir eru hvor tveggja af ungum hvölum. „Okkur sárvantar því af fullorðnum tarfi. Manni sárnar náttúrulega að sjá þessi dýr koma hérna á land, og maður finnur til með þeim, en eins hvals dauði er annars manns reður,“ segir Hjörtur.

Sigurður Hjartarson, stofnandi Reðasafnsins, og Hjört­ur Gísli Sig­urðsson, sonur hans …
Sigurður Hjartarson, stofnandi Reðasafnsins, og Hjört­ur Gísli Sig­urðsson, sonur hans og forstöðumaður þess nú, til hægri. mbl.is/HAG

Það voru tugir hvala sem rak á land í Garði í síðustu viku, þannig að hvalrekinn hefði í sjálfu sér átt að vera hvalreki fyrir safnið. Hann var það þó ekki, því af ýmsum ástæðum voru aðstæður ekki hagfelldar reðursöfnun. Hjörtur var í sumarfríi fyrir vestan í lok síðustu viku þannig að hann fór ekki sjálfur á staðinn. Hann gerir það næst þegar hann fréttir af svipuðu.

„Svo er Hafrannsóknastofnun alltaf með okkur í huga en þeim tókst ekki að græja þetta núna. Það er allt í lagi og við höldum bara áfram að reyna. Við erum alltaf að leita að reðrum, við viljum eðli máls samkvæmt alltaf fjölga safngripum,“ segir Hjörtur að lokum, en safnið telur nú um 300 reðra af 90 tegundum dýra, þar af einn mannslim.

Hvalatorfan á Löngufjörum á Snæfellsnesi var orðin það illa farin …
Hvalatorfan á Löngufjörum á Snæfellsnesi var orðin það illa farin þegar hún fannst að þar var afráðið að leita ekki reðra. mbl.is/RAX
mbl.is