Eyða fimmfalt meira í Reykjavík en á Hvammstanga

Ferðamenn verja um fimmfalt meiri fjármunum á sólarhring í Reykjavík …
Ferðamenn verja um fimmfalt meiri fjármunum á sólarhring í Reykjavík en á Hvammstanga og tæplega fjórfalt meira en í Stykkishólmi. mbl.is/Eggert

Ferðamenn sem dvelja í Reykjavík verja allt að fimmfalt hærri upphæð í þjónustu, verslun og afþreyingu á sólarhring en þeir ferðamenn sem dvelja á Hvammstanga. Meðalútgjöld ferðamanna á sólarhring í Reykjavík eru um 38 þúsund, en eru hins vegar tæplega 8 þúsund á Hvammstanga. Þetta er meðal þess sem kemur fram niðurstöðum ferðavenjukönnunar á átta áfangastöðum víða um landið sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála vann fyrir Ferðamálastofu, en niðurstöðurnar byggja á svörum ferðamanna sumarið 2018.

Staðirnir sem skoðaðir eru í könnuninni eru Reykjavík, Reykjanesbær, Vík, Stykkishólmur, Ísafjörður, Hvammstangi, Húsavík og Egilsstaðir.

Helstu niðurstöður sýna að ferðavenjur og útgjöld erlendra gesta voru talsvert ólík eftir stöðum og lá helsti munurinn í ástæðum heimsóknar, dvalartíma og neyslumynstri gesta.

Meðalútgjöld hækkuðu um 75% á Egilsstöðum

Þegar meðalútgjöld ferðamanna eru skoðuð sést að vægi einstakra liða er mjög mismunandi milli staða. Tengjast bæði útgjöldin og ástæða komunnar á viðkomandi stað þess sem er í boði. Þannig er til að mynda hæsti útgjaldaliðurinn á Húsavík hvalaskoðun og jafnframt helsta ástæða þess að ferðamenn ákváðu að fara þangað auk þess að vera hápunktur viðkomunnar.

Meðalútgjöld ferðamanna voru næst hæst í Reykjanesbæ (18.441 kr. á sólarhring), Húsavík (18.085 kr. á sólarhring) og Vík (17.335 kr. á sólarhring). Á Egilsstöðum voru meðalútgjöldin 14.556 og höfðu hækkað um 75% frá könnuninni árið 2016. Á Ísafirði voru meðalútgjöldin 12.178 kr. og í Stykkishólmi 10.358 kr.

Selir voru mesta aðdráttarafl Hvammstanga, en hér hvílast nokkrir slíkir …
Selir voru mesta aðdráttarafl Hvammstanga, en hér hvílast nokkrir slíkir í nágrenni bæjarins.

Verja lægri upphæð í gistingu í Reykjavík

Meðalútgjöld vegna gistingar eru lang hæst í Reykjavík, en þar verja ferðamenn að meðaltali tæplega níu þúsund á sólarhring í gistingu. Upphæðin hefur reyndar lækkað umtalsvert frá könnuninni sem gerð var sumarið 2016, en þá vörðu ferðamenn að meðaltali 11.642 krónum í gistingu á sólarhring.

Gisting er stærsti útgjaldaliðurinn á fimm stöðum. Á Húsavík er afþreying stærsti útgjaldaliðurinn, tæplega þrefalt stærri en gisting eða veitingar. Í Reykjanesbæ eru bæði veitingar og matvara stærri flokkar en gisting og það sama má segja um Hvammstanga. Helgast það af því að flestir ferðamenn sem koma á Hvammstanga verja þar aðeins hluta úr degi, en meðaldvalarlengt þar var 12 klukkustundir og var sú stysta af áfangastöðunum átta.

Ferðamenn í Vík voru líklegir til að mæla með staðnum …
Ferðamenn í Vík voru líklegir til að mæla með staðnum við vini og vandamenn, enda mikið um stórbrotna náttúru í næsta nágrenni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næturgestum fjölgar mikið á Húsavík

Ferðamenn dvelja lengst í höfuðborginni að meðaltali eða um 2,6 daga, en styst á Hvammstanga og í Stykkishólmi, á báðum stöðum í um 12 klukkustundir. Á Ísafirði var meðaldvalartími um sólarhringur og á Húsavík 21 klukkustund. Þar hefur meðaldvalartími aukist úr 15 klukkustundum frá árinu 2016, en það skýrist af því að í fyrra var hlutfall þeirra sem gistu 39% aðspurðra, en var 28% tveimur árum áður. Á Egilsstöðum og í Reykjanesbæ dvöldu ferðamenn að meðaltali í um 17 klukkustundir og í Vík í 16 klukkustundir.

Helmingur ferðamanna á Ísafirði kemur með skemmtiferðaskipum

Hlutfall farþega með skemmtiferðaskipum var hæst á Ísafirði, en þar notaði tæpur helmingur gesta þann ferðamáta. Á öðrum stöðum var bílaleigubíllinn vinsælasti ferðamáti gesta.

Um helmingur ferðafólks kom til Ísafjarðar með skemmtiferðaskipum síðasta sumar.
Um helmingur ferðafólks kom til Ísafjarðar með skemmtiferðaskipum síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Langflestir gesta ferðast með fjölskyldu eða vinum, en hlutfallið var á bilinu 80% upp í 93% eftir stöðum. Þá voru um 10% á eigin vegum, en  greina má talsverða fækkun þeirra sem svara að þeir séu í skipulagðri hópferð.

Líklegastir til að mæla með Húsavík

Sá staður sem gestir voru líklegastir til að mæla með var Húsavík, en 67% aðspurðra sögðust líklegir til að mæla með áfangastaðnum við vini og vandamenn. Aðeins 4% mæltu ekki með honum, en tæplega 30% voru hlutlausir. Ísafjörður kemur þar stuttu á eftir með 62% sem mæla með staðnum og 57% sem mæla með Vík.

Hvalaskoðun er helsta ástæða þess að ferðamenn dvelja á Húsavík.
Hvalaskoðun er helsta ástæða þess að ferðamenn dvelja á Húsavík. mbl.is/​Hari

Gestir staðanna voru almennt ánægðir með dvölina og víða komu fram jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og þjónustu en þó var einnig greinileg óánægja með hátt verðlag.

Skoða má heildarniðurstöður könnunarinnar hér.

mbl.is