Bjóða bæði lúsmís og aspasís

Fjölmenni hefur mætt á ísdaginn undanfarin ár.
Fjölmenni hefur mætt á ísdaginn undanfarin ár. Mynd/Kjörís

Lúsmís, aspasís og kampavínsís eru meðal þeirra ístegunda sem verða á boðstólum á árlegum ísdegi Kjöríss sem haldinn verður í verksmiðju fyrirtækisins í Hveragerði nk. laugardag.

Dagurinn er haldinn í samstarfi við bæjarhátíðina Blómstrandi daga og því geta gestir einnig notið annarrar dagskrár sem er í boði í bænum.

Þúsundir hafa mætt á hátíðina undanfarin ár sem nú verður haldin í 13. skipti.

Í ár heldur Kjörís upp á 50 ára afmæli sitt og mun ísdagurinn bera keim af því. Lögð verður sérstök ísleiðsla úr verksmiðjunni og út á bílaplan, þar sem dælurnar verða í stanslausri notkun allan daginn og mega gestir borða eins mikinn ís og þeir geta í sig látið.

Í fyrra runnu um tvö og hálft tonn af ís ofan í gesti Ísdagsins.  Ásamt hinum hefðbundna ís verður líkt og síðustu ár boðið upp á ýmsar óvæntar bragðtegundir sem ísgerðarmenn Kjöríss hafa leikið sér með, líkt og aspasís, hnetusmjörsís, kampavínsís og lúsmís.

Skemmtidagskrá verður á staðnum fyrir börn og fullorðna en Ingó Veðurguð mætir með gítarinn, Daði Freyr fer á svið, eins taka hin hvergerðska Birna og herra Hnetusmjör lagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert