Eldur eftir flugeldasýningu í Hveragerði

Um töluverðan eld var að ræða, en greiðlega gekk að …
Um töluverðan eld var að ræða, en greiðlega gekk að slökkva hann. Ljósmynd/Aðsend

Talsverður eldur kviknaði í gróðri í Hveragerði laust fyrir kl. 23 í gærkvöldi, við skotpall flugeldasýningar sem þar var haldin í tilefni bæjarhátíðarinnar Blómstrandi daga.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri birti myndskeið af eldtungum leika um gróðurinn í gærkvöldi og sagði að þetta hefði verið „rosalegt“ en þegar hún tók myndskeiðið var slökkviliðið komið með góða stjórn á málum.

„Slökkviliðið er nú að ná tökum á þessu, sem betur fer. Guð minn góður,“ sagði bæjarstjórinn, en á vef RÚV er haft eftir Sverri Hauki Grönli, varaslökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu, að greiðlega hafi gengið að slökkva eldinn. Tveir dælubílar voru kallaðir til verksins.

Sverrir segir að ekki sé mælt með litlum einkaflugeldasýningum, þar sem gróður sé sérlega viðkvæmur núna eftir þurrkatíð.

Fjöldi fólks var í Hveragerði í gær og tók þar þátt í dagskrá bæjarhátíðarinnar og hinum árvissa ísdegi Kjörís.

Myndband Aldísar Hafsteinsdóttur má sjá hér að neðan.mbl.is