Fékk áfall þegar hann sá myndbandið

„Guð má vita hvað hefði gerst ef hurðin hefði verið opin, eins og getur auðvitað alltaf gerst, og við sofandi inni á meðan,“ segir Sigurður Þór Helgason, íbúi á Álagranda í Vesturbænum, sem varð fyrir þeirri óhugnanlegu reynslu að sjá bréfbera reyna að fara inn í húsið sitt að næturlagi. Hurðin var læst.

Í myndbandinu sést að maðurinn hallar sér aðeins á hurðina …
Í myndbandinu sést að maðurinn hallar sér aðeins á hurðina í von um að hún opnist. Hún er læst, en „guð má vita hvað hefði gerst“ ef ekki, eins og Sigurður segir. Skjáskot/Facebook

„Ég fór bara og beindi því til fólks að gleyma aldrei að læsa útidyrahurðinni. Ég var bara heppinn,“ segir Sigurður. Það var fyrr í mánuðinum sem Sigurður vaknaði um miðja nótt við tilkynningu um hreyfingu við útidyrnar, fór þá og kannaði málið í eftirlitsmyndavélunum og þar blasti við honum það sem sést í myndbandinu hér að ofan.

Sigurður Þór Helgason segir að sér hafi verið stórbrugðið þegar …
Sigurður Þór Helgason segir að sér hafi verið stórbrugðið þegar hann sá skýrt á upptöku úr öryggismyndavél við heimili hans, hvernig bréfberi reyndi að opna dyrnar heima hjá honum. Ljósmynd/Facebook

„Ég fékk bara áfall. Þegar maður er með fjölskyldu, börn og verðmæti þarna inni gengur þetta mjög nærri manni. Ég svaf ekkert alla nóttina eftir að hafa séð þetta myndband,“ segir Sigurður. 

Hann hafði áður séð sama bréfbera gægjast inn um gluggana á heimili sínu. „Einu sinni gerðist það þegar ég var í útlöndum. Þá vissi ég ekki að þetta væri bréfberi og var erlendis. Ég sá bara hvernig hann kom upp að hurðinni og kíkir vandlega inn um gluggana,“ segir Sigurður. Hann fór svo úr augsýn öryggismyndavélarinnar og þá taldi Sigurður öruggt að hann hefði farið inn í húsið og hringdi á lögregluna. Hann hafði sem betur fer ekki gengið svo langt það skiptið.

Lögreglan gerir ekkert, því tilraun til að opna hurð er ekki lögbrot

Þegar Sigurður sá manninn reyna að fara inn í húsið gerði hann lögreglu viðvart og benti Póstdreifingu einnig á málið, fyrirtækinu sem annast útburð meðal annars Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Núna fyrir helgi sá Póstdreifing til þess að viðkomandi bréfberi bæri ekki lengur út blöð fyrir fyrirtækið, en hann starfaði hjá verktaka sem Póstdreifing er með í vinnu við að bera út blöð. Hjá Póstdreifingu starfa 550-600 manns við útburð á hverri nóttu.

Aðalsteinn Guðjónsson framkvæmdastjóri Póstdreifingar segir í samtali við mbl.is að upprunalega, þegar Sigurður gerði þeim viðvart um málið, hafi Sigurður jafnframt farið þess á leit við Póstdreifingu að aðhafast ekkert í málinu, þar sem lögreglan væri komin með málið. Bréfberinn hélt áfram að bera út á þessu svæði það sem eftir lifði vikunnar og út þá næstu en var aldrei séður taka í hurðarhúna eftir að lögreglu hafði verið gert viðvart um þetta skipti. Hann hætti fyrir helgi að vinna fyrir verktakann. „Það tók einhverja daga en það er skýrt, að þessi bréfberi ber ekki lengur út fyrir Póstdreifingu,“ segir Aðalsteinn.

Lögreglan mun ekkert gera, enda ekki um eiginlegt lögbröt að ræða. Sigurður segir að honum sé órótt eftir atvikið og hann beinir því til fólks að gæta vel að hafa hurðina læsta á næturnar. Hann segir að eftir samtöl við nágranna og inni í Facebook-hópi hverfisins sé sér orðið ljóst, að margir kannast við að einhver reyni að opna hurðarhúninn á útidyrahurðinni að næturlagi. Hann áréttar þó að það segi ekki til um að vandinn sé þekktur annars staðar en á þessu afmarkaða svæði í Vesturbæ.

mbl.is