Höfðu hjálm á höfði Mikkelsen

„Það eiga allir að hjóla með hjálm og þar er Mads Mikkelsen engin undantekning,“ svarar Garðar Svansson vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni fyrirspurn mbl.is um reiðhjólahjálminn á höfði leikaranum danska Mads Mikkelsen í Carlsberg-auglýsingu sem er í birtingu í íslenskum miðlum nú um stundir. 

Í upprunalegu auglýsingunni, þeirri dönsku, strýkur Mikkelsen um öllu frjálsara höfuð: Hann hjólar hjálmlaus um stræti Kaupmannahafnar og talar fjálglega um það sem hann telur að sé líklega besti bjór í heimi. Sú hjálmlausa ráðstöfun virðist sem sé ekki hafa þolað útflutning frá Danmörku til Íslands. Hér var valin sú leið að hafa hjálm á leikaranum, sem var tölvugerður á kollinn á honum eftir á, samanber augnablikið þegar hann klöngrast á hjólinu út úr hveitisturtu í bakaríinu, þar sem hjálmurinn hverfur af kollinum á honum í örstutta stund en birtist svo aftur.

Ölgerðin sér um innflutning og sölu á Carlsberg hér á landi en Carlsberg í Danmörku framleiðir auglýsinguna, eins og gefur að skilja. Það vakti athygli fyrr í sumar þegar auglýsingin birtist í írsku sjónvarpi og Mikkelsen var allt í einu kominn með hjálminn. Eins og má sjá í upprunalegu gerðinni hér að neðan er þar engan hjálm að sjá, en þegar til Írlands var komið var klipptur inn hjálmur fyrir atbeina einhvers konar samtaka þarlendra um umferðaröryggi, sem telja hjálminn þar skipta höfuðmáli.

Danska gerðin:

Ætla má að sú gerð auglýsingarinnar, þessi með hjálminum, hafi verið búin til sérstaklega fyrir írskan markað en þegar auglýsingin var send Ölgerðinni hér voru tvær gerðir í boði: Með og án hjálms. „Við gátum fengið hana með eða án hjálms. Okkur finnst það einfaldlega bara samfélagslega ábyrgt að hafa hann með hjálm,“ segir Garðar vörumerkjastjóri við mbl.is. 

Á efri myndinni er Mikkelsen á hjólinu, svo vippar hann …
Á efri myndinni er Mikkelsen á hjólinu, svo vippar hann af sér af því, vindur sér að myndavélinni við barinn og er skyndilega ekki lengur með hjálm. Sá sem klippti hjálminn inn í myndbandið sá sem sagt aðeins ástæðu til að hafa hjálminn þegar hann var á hjólinu, en í öðrum hlutum auglýsingarinnar ekki. mbl.is/Samsett

Carlsberg á Írlandi var gagnrýnt fyrir smámunasemina af mönnum sem hugað er um frjálsleg viðhorf í reiðhjólamálum. Orðræða þeirra er á þá leið að þó að hjálmar séu góð og gild öryggistæki sé ekki tilefni til að núa hverjum þeim sem velur að hjóla án hjálms því linnulaust um nasir hve óvarleg ráðstöfun það er.

Samanburður á dönsku auglýsingunni og hinni sömu auglýsingu í írskum …
Samanburður á dönsku auglýsingunni og hinni sömu auglýsingu í írskum miðlum á sínum tíma. mbl.is/Samsett
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert