Þarf að rannsaka betur fjölsótta staði

Berghrun varð úr Reynisfjalli í nótt.
Berghrun varð úr Reynisfjalli í nótt. Mbl.is/Jónas Erlendsson

„Það þarf að rannsaka betur vinsæla ferðamannastaði eins klettabeltin ofan við Reynisfjöru, með tilliti til hættu á skriðuföllum“ segir Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á sviði skriðufalla og hættumats hjá Veðurstofu Íslands. Skriða féll úr Reynisfjalli í nótt.

Hann segir að af fyrstu myndum að dæma  ljóst að hrunið sé óvenju stórt miðað við aðrar skriður sem hafa verið að falla í sunnanverðu Reynisfjalli á síðustu árum og mögulega stærri en skriðan sem féll á svipuðum stað árið 2005. Hins vegar sé of snemmt að segja nákvæmlega til um umfangið þar til sérfæðingar hafa myndað og tekið svæðið út.

Reglulega hrinur grjót úr Reynisfjalli og hefur gert síðustu áratugi. Hann segir ekki ljóst nákvæmlega hvað olli hruninu í fjallinu en það er samspil margra þátta. „Reynisfjall er að stórum hluta samsett úr móbergi og það getur verið laust í sér. Úthafsaldan er sterk og getur hafa grafið undan fjallinu og valdið óstöðugleika. Það getur verið erfitt að átta sig nákvæmlega á aðstæðum. Skriður eru flókin fyrirbæri,” segir Jón Kristinn. Hann segir margt líkt með þessu og skriðunum sem hafa verið að falla í Kirkjufjöru í Dyrhólaey.

Reynisfjall er ekki vaktað með sérstökum mælitækjum með tilliti til hættu á skriðuföllum. Jón Kristinn segir mikilvægt sé að rannasaka svæði sem eru jafn eftirsóttir ferðamannastaðir eins og Reynisfjara. Hann bendir á að á sumum stöðum sé ekki hægt að koma fyrir mælibúnaði til vöktunar. Einnig taki það tíma að finna út hvað henti til að vakta mismunandi svæði. 

Erum að stíga okkar fyrstu skref í vöktun fjallshlíða

„Að vissu leyti erum við að stíga okkar fyrstu skref í mælingum á óstöðugum fjallshlíðum,“ segir Jón Kristinn um vöktun á slíkum fjallshlíðum. Veðurstofa Íslands vaktar nokkur svæði á landinu með tilliti til hættu á skriðuföllum. Hér á landi hefur fjallshlíðin ofan við Óshlíðarveg milli Hnífsdals og Bolungarvíkur verið vöktuð frá árinu 1982. Þar hefur verið gliðnun í áratugi. „Þessar mælingar voru mikilvægari þegar vegurinn um Óshlíðina var í notkun, fyrir tíma Bolungarvíkurganga. Við höfum haldið mælingum þar áfram í rannsóknarskyni til að bera saman við önnur svæði t.d. til að vita við hverju við megum búast við,“ segir hann. 

Öflugasta vöktunarkerfið með þéttasta netinu með tilliti til skriðufalla er á Svínafellsheiði. Þar eru meðal annars togmælar sem senda okkur upplýsingar gegnum netið, tvær GPS-stöðvar og höfum við verið að nota svokallaða InSAR tækni eða bylgjuvíxlmælingar. Sú aðferðafræði sem byggir á að gervitungl fara yfir svæðið og taka myndir á 6 til 12 daga fresti og með vissri aðferðafræði er hægt að greina hvort að einhverjar breytingar hafa orðið á svæðinu á milli mynda. Á síðustu tveimur árum hefur Veðurstofan verið að notast við þessa aðferðafræði til að vakta nokkur þekkt skriðusvæði.

„Við stefnum að því tímafreka verkefni að safna sama upplýsingum bæði frá sérfræðingum og almenningi um sprungur sem hafa myndast í fjallshlíðum og flokka óstöðugar hlíðar. Eins þarf að meta hvernig best sé að vakta óstöðugar fjallshlíðar sem að geta mögulega ógnað vegum eða byggð“ segir hann. 

Frændur okkar Norðmenn miðla af reynslu sinni

Sigríður Sif Gylfadóttir, sérfræðingur í ofanflóðahættumati hjá Veðurstofu Íslands, tekur í sama streng og Jón Kristinn. Hún segir mikilvægt að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar hér á landi eins og gert er í Noregi. Í sumar fór hópur sérfræðinga Veðurstofunnar og Háskóla Íslands til Noregs gagngert að kynna sér áratuga reynslu Norðmanna í þessum efnum.

„Þetta var mjög lærdómsríkt og dýrmætt að hitta norsku sérfræðingana til að koma á frekara samstarfi í framtíðinni,“ segir Sigríður. Ákaflega vel var tekið á móti hópnum en auk Íslendinganna var hópur sérfræðinga frá Indlandi í ferðinni. Norðmenn eru boðnir og búnir að aðstoða og veita Íslendingum góð ráð á þessu sviði, að sögn Sigríðar.

„Þar sem við erum að byrja á þessu hér á landi er gagnlegt að fá yfirsýn yfir hvað hefur reynst vel annars staðar og hvað ekki,” segir Sigríður. „Eftir heimsóknina varð skýrara í okkar huga hvert við þurfun að stefna á næstu árum. Við höfum samt ekki eins mikil fjárráð og þeir,“ segir Sigríður að lokum.

Reynisfjara er eftirsóttur ferðamannastaður.
Reynisfjara er eftirsóttur ferðamannastaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert