Bergið opnar dyr sínar á Suðurgötu

Hópur ungmenna fyrir framan húsnæði Bergsins við Suðurgötu 10. Þar …
Hópur ungmenna fyrir framan húsnæði Bergsins við Suðurgötu 10. Þar mun starfið fara fram á forsendum ungmennanna. Ljósmynd/Bergið Headspace

„Við erum byrjuð að opna dyrnar, við erum búin að opna símann og opna vefspjallið en formlega opnunin okkar er á Menningarnótt og mánudaginn þar á eftir, 26. ágúst,“ segir Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Bergsins Headspace, í samtali við mbl.is.

Bergið Headspace er stuðningsúrræði fyrir ungt fólk sem er að opna á Suðurgötu 10 í Reykjavík. Þar verða dyrnar opnar ungu fólki upp að 25 ára aldri alla virka daga á milli kl. 13 og 18. Formleg opnun verður á Menningarnótt á laugardaginn, á milli kl. 18 og 20, eins og fræðast má um á Facebook-viðburði Bergsins.

Ungmenni geta komið í Bergið, rætt um vandamál sín og vanlíðan og fengið áheyrn hjá ráðgjöfum sem hafa reynslu og þekkingu til þess að hjálpa þeim og leiðbeina. Þegar húsnæðið er ekki opið geta ungmenni svo sett sig í samband við ráðgjafa Bergsins í gegnum síma eða vefspjall.

Sigurþóra að mikill spenningur sé hjá þeim sem stóðu að stofnun Bergsins, en húsnæðið við Suðurgötu fékkst afhent í vor og hefur verið unnið í því síðan þá.

„Það er búinn að vera að okkur finnst dálítið langur aðdragandi, þó að hann sé kannski ekkert svo langur í raun og veru. Við hlökkum bara mjög mikið til að byrja og átta okkur á því hvað það er sem sem ungmennin sem til okkar koma eru að leita eftir,“ segir Sigurþóra.

Sigurþóra Bergsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Bergsins Headspace.
Sigurþóra Bergsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Bergsins Headspace. mbl.is/Hari

Hún bætir því við að það verði ungmennin sem  komi til með að stýra því að mestu í hvaða átt þjónustan muni fara.

„Við erum að setja fram stuðning og ráðgjöf og hugmyndir um að þróa hópa og frekara starf, en það verður að miklu leyti háð því hvað krökkunum sem til okkar koma finnst og hvað þeim vilja, því við erum að búa til eitthvað sem verður á þeirra forsendum, fyrir þau,“ segir hún.

Hlutlaust eyra bíður ungmenna

Bergið byggir á Headspace-hugmyndafræðinni og er svokölluð lágþröskuldaþjónusta. Hug­mynda­fræðin bygg­ist á því að ungt fólk á aldr­in­um 12-25 ára geti gengið að því sem vísu að eiga kost á því að leita til ein­hvers, sama hversu stór eða lít­il vanda­mál­in eru.

„Ef það er eitthvað sem veldur þeim vanlíðan eða vandræðum þá geta þau komið og fengið hlutlaust eyra frá aðila sem hefur menntun og reynslu og þekkingu á því hvernig er hægt að takast á við slíka hluti. Við erum ekki meðferðarúrræði, heldur erum við stuðningur, en við erum búin að setja okkur í samband við og tengjast mörgum þeim úrræðum sem til eru á Íslandi, svo við getum líka svona brú yfir í önnur og meiri meðferðarúrræði ef á þarf að halda,“ segir Sigurþóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert