Skora á Katrínu að lýsa yfir neyðarástandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Píratahreyfingin hefur nú bæst í hóp þeirra …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Píratahreyfingin hefur nú bæst í hóp þeirra sem vilja að hún lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píratahreyfingin tekur undir áskorun helstu náttúruverndarsamtaka landsins og skorar á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.

Í áskoruninni, sem dagsett var 16. ágúst og sem undirrituð er m.a. af forsvarsmönnum Landverndar, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Fuglavernd Íslands, Votlendissjóði, Neytendasamtökunum og Stúdentaráði Háskóla íslands er það sagt vekja furðu að ekkert Norðurlandanna hafi fylgt í fótspor breska þingsins og lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.  

„Gögnin eru skýr, það ríkir neyðarástand og unga kynslóðin okkar grátbiður okkur um að taka ábyrgð. Losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi eykst hratt og er, miðað við höfðatölu, mun meiri en í nágrannalöndum okkar,“ segir í áskoruninni. Þar er Katrín hvött til að „lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skuldbinda [Ísland] sem þjóð til að sýna alvöru ábyrgð.“

Tillagan var samþykkt í kosningakerfi Pírata þar sem hún hlaut flýtimeðferð, að því er fram kemur í tilkynningu frá Pírötum. Er jafnframt lagt til að forsætisráðherra leggi í kjölfarið fram tillögur að grænum sáttmála fyrir Ísland líkt og kveðið er á um í þingsályktunartillögu Pírata um grænan sáttmála.

mbl.is

Bloggað um fréttina