Ekki skortur á kjúklingakjöti

Ekki stefnir í skort á kjúklingakjöti á markað þrátt fyrir …
Ekki stefnir í skort á kjúklingakjöti á markað þrátt fyrir veirusýking sem greindist nýverið. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Aðalatriðið er að fara í aðgerðir sem útiloka að þetta breiðist út og verði landlægt. Við erum í góðu samstarfi við MAST í þeim aðgerðum,“ segir Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastóri Reykjagarðs, sem er eigandi kjúklingastofnsins á Rangárbúinu á Hólavöllum í Landsveit þar sem greinst hafa tvær skæðar veirusýkingar. 

Guðmundur ítrekar að engin hætta sé á að neyta kjúklingakjöts vegna veirunnar því hún berist hvorki í dýr né menn. Veiru­sjúk­dómarnir tveir, Gum­boro veiki og inn­lyksa lifr­ar­bólga, eru landlægir víða um heim þar sem alifuglarækt er stunduð en hefur ekki áður greinst hér á landi. 

Spurður hvort skortur verði á kjúklingakjöti á markað segir hann ekki líkur á því. Talið er að um 10 þúsund kjúklingar hafi drepist vegna veirunnar sem kom upp á búinu. Til samanburðar slátra Reykjagarðar um 50 þúsund kjúklingum á viku. 

„Aðalatriðið er að ná tökum á að útrýma þessu“

Að sjálfsögðu er þetta eitthvert tjón en aðalatriðið er að ná tökum á að útrýma þessu,“ segir Guðmundur. Fyrirtækið er í stakk búið að gera ráðstafanir og mögulega auka framleiðsluna á öðrum stöðum, að sögn Guðmundar.

Þegar lokið verður að slátra öllum fuglum á búinu verða öll húsin þrifin rækilega og sótthereinsuð. Það gæti tekið nokkrar vikur og því verður enginn rekstur í húsunum á þeim tíma. 

mbl.is