Sjötíu ný stúdentaherbergi á lóð HÍ

Tölvuteiknuð mynd af nýbyggingu við Gamla-Garð.
Tölvuteiknuð mynd af nýbyggingu við Gamla-Garð. Mynd/Andrúm

Stúdentaíbúðir munu rísa á lóð Háskóla Íslands við Gamla-Garð samkvæmt breyttu deiliskipulagi sem borgarráð samþykkti í gær.

Íbúðirnar verða byggðar samkvæmt deiliskipulagstillögu Andrúms arkitekta. Í breytingunni felst að stúdentaíbúðum verður fjölgað á háskólasvæðinu með stækkun á Gamla-Garði með viðbyggingu og hugsanlegri nýtingu byggingarinnar Stapa fyrir stúdentaíbúðir.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Stúdentaíbúðirnar rísa á reit á horni Suðurgötu og Hringbrautar og afmarkast af þeim götum til norðurs og austurs og af Sæmundargötu til suðurs og vesturs. Lóðin er á eignarlandi Háskóla Íslands.

Áformað er að reisa viðbyggingu við Gamla-Garð, þrjár hæðir og kjallara, sem tengist suðurgafli núverandi húss. Við það verður til nýr aðalinngangur að sameinuðum Gamla-Garði og viðbyggingu frá Sæmundargötu eða Skeifunni svokölluðu. Gert er ráð fyrir að í viðbyggingunni verði 70 ný stúdentaherbergi ásamt sameiginlegum eldhúsum, samkomurýmum og geymslum.

Í tillögu Andrúms arkitekta að viðbyggingunni er lagt upp með að hún falli vel að núverandi byggingum á háskólasvæðinu en Gamli-Garður var á sínum tíma teiknaður af Sigurði Guðmundssyni arkitekt. Dregið er til muna úr umfangi byggingarmagnsins þannig að byggingar sem eru fyrir á svæðinu njóta sín áfram, að því er segir í tilkynningunni. 

Heildarstærð nýbyggingarinnar sem mun rísa á reitnum verður að hámarki 2.800 fermetrar ofanjarðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Stúdentagörðum er hönnun komin vel á veg. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist um næstu áramót. Gert er ráð fyrir að verklok verði síðsumars 2021.

Stúdentagarðar eru að byggja 244 íbúðir á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu og er reiknað með verklokum þar um áramót.

mbl.is