Tekur „burpee“ fyrir hvern þúsundkall

Diljá hefur áður tekið þátt í 5 og 10 kílómetra …
Diljá hefur áður tekið þátt í 5 og 10 kílómetra hlaupum en á morgun hleypur hún sitt fyrsta hálfmaraþon. mbl.is/Valli

„Ein af mínum bestu vinkonum lenti í því hörmulega atviki í fyrra að missa dóttur sína eftir sjö mánaða meðgöngu. Gleym mér ei hjálpaði henni og kærastanum hennar í gegnum þennan erfiða tíma og ég er ótrúlega þakklát fyrir þá aðstoð sem þau fengu,“ segir Diljá Rut Guðmundudóttir.

Hún hleypur 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun og safnar áheitum fyrir Gleym mér ei, styrktarfélag til stuðnings foreldrum sem missa barn á meðgöngu og í eða eftir fæðingu.

Diljá Rut Guðmundudóttir.
Diljá Rut Guðmundudóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég veit að hana langaði sjálfa að hlaupa fyrir þau, en svo var hún svo heppin að hún varð ófrísk aftur og plönin breyttust, svo ég tók þetta á mig,“ segir Diljá Rut.

Hún hefur áður tekið þátt í 5 og 10 kílómetra hlaupum en á morgun hleypur hún sitt fyrsta hálfmaraþon og segir það verða áskorun. Diljá setti sér markmið um að safna 50.000 krónum, en upphæðin er þegar komin upp í 64.000 krónur og hún er að vonum himinlifandi.

„Ég er svo ánægð. Ég var ekki viss um að ég myndi ná þessu. Svo komst ég upp í 50 og hugsaði með mér að ég gæti kannski farið lengra, svo ég setti á Facebook að fyrir hvern þúsundkall sem ég færi fram yfir tæki ég burpee þegar ég kæmi í markið.“

Þeir sem vilja heita á Diljá Rut og sjá hana gera enn fleiri burpees í markinu, og styrkja gott málefni í leiðinni, geta gert það hér.

mbl.is