Þrengja verulega að rekstri Landspítala

Páll Matthíasson, forstjór Landspítala, segir ekki hægt að komast hjá …
Páll Matthíasson, forstjór Landspítala, segir ekki hægt að komast hjá aðhaldsaðgerðum. mbl.is/Golli

Fjárhagsstaða Landspítala er „alvarleg“ og hefur þegar verið gripið til aðgerða vegna hennar, segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í forstjórapistli á vef spítalans. Þar segir hann þörf á að „þrengja verulega í rekstrinum.[…] Það er engum gleðiefni að halda enn af stað í slíkar aðhaldsaðgerðir en hjá því verður ekki komist.“

Fjallað hefur verið um verulegan hallarekstur Landspítala á árinu, en hann er talin talsvert umfram hallarekstur hans í fyrra þegar hann var 1,4 milljarðar króna. Jafnframt hefur komið fram í umfjöllun Morgunblaðsins að framlög ríkisins til Landspítalans hafi vaxið um 25% frá árinu 2016.

Páll bendir á í sínum pistli að framlög til heilbrigðisþjónustunnar hafa aukist og þjónusta Landspítala sömuleiðis, en að það hafi ekki verið „í samræmi við mjög hratt vaxandi þörf.“ Þá segir forstjórinn skipuritsbreytingar spítalans „vissulega kynntar í skugga fjárhagsstöðu Landspítala en eru þó ekki sérstaklega til komnar vegna hennar.“

Vísar til McKinsey-skýrslunnar

Í pistli forstjórans er rætt um þær miklu kröfur sem eru gerðar um aukna, hraðari, fullkomnari og betri þjónustu. Segir Páll að það hafi tekist með „eftirtektarverðum árangri“ að mæta þessum óskum. „Við getum verið afar stolt af árangrinum og ekki hvað síst í því ljósi að þessu náðum við samhliða því að byggja upp starfið eftir að Landspítali þurfti að taka á sig einna hörðustu niðurskurðarkröfuna í kjölfar hrunsins.“

„McKinsey skýrslan sýndi fram á afar hagkvæman rekstur spítalans. Þetta allt skulum við hafa í huga þótt einhverjir kunni að kjósa að horfa í aðrar áttir, nú þegar spjótin beinast að alvarlegri fjárhagsstöðu spítalans,“ skrifar Páll.

Óskilvirkt kerfi

Fram kemur í skýrslu McKinsey, sem forstjórinn vísar til, að „Ísland kemur almennt vel út þegar gæði heilbrigðisþjónustu eru borin saman milli landa og enn betur þegar árangur er skoðaður í tengslum við útgjöld til heilbrigðisþjónustu.“

„Aftur á móti er íslenska heilbrigðiskerfið að sumu leyti óskilvirkt sem stuðlar líklega að því að meiri fjármunir eru notaðir en nauðsyn krefur. […] Skilvirkni þeirra stofnana sem veita heilbrigðisþjónustu hefur einnig mikil áhrif á heildarútgjöld til heilbrigðismála. Veldur þar frammistaða Landspítalans miklu því að hann er stærsti veitandi heilbrigðisþjónustu á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert