„Vandræðaleg erindaleysa“ Vigdísar

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Leiðangur áheyrnarfulltrúa Miðflokksins [Vigdísar Hauksdóttur] í borgarráði er orðinn afar vandræðalegur og hefur borgarfulltrúinn enn á ný magalent úti í skurði.“ Þetta segir í bókun meirihluta borgarstjórnar við bréfi yfirkjörstjórnar Reykjavíkur sem tekið var fyrir í borgarráði í gær.

Í bréfinu vísar yfirkjörstjórn kæru Vigdísar vegna síðustu borgarstjórnarkosninga frá, en Vigdís hafði kært framkvæmd þeirra eftir að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að borgin hefði brotið lög með skilaboðasendingum og bréfum fyrir síðustu kosningar, þar sem markhópar voru hvattir til að kjósa. Ráðuneytið hafði áður vísað kæru Vigdísar frá á þeim forsendum að kærufrestur væri liðinn og leggur yfirkjörstjórn það til grundvallar ákvörðun sinni.

Í bókun meirihlutans segir að Vigdís hafi með „leiðangri“ sínum sóað tíma og fjármunum borgarinnar, en bent er á að kostnaður borgarinnar vegna kæranna, sem meirihlutinn kallar erindisleysu, sé um tvær milljónir króna.

Vill eftirlit ÖSE með næstu kosningum

Í bókun Vigdísar segir að meirihlutinn sé rúinn trausti og „[sitji] á valdastólum á grunni vafans um hvernig útslit kosninganna væru hefði ekki verið farið í ólöglegar snertingar við kjósendur“. Fór hún fram á að lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hefði eftirlit með næstu borgarstjórnarkosningum, en forstjóri þeirrar stofunar er einmitt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri.

Vigdís segir kæru sinni hafa verið vísað frá á lagatæknilegum grundvelli. Alvarlegt væri að heimilt væri að svindla í kosningum svo framarlega sem ekki kæmist upp um svindlið innan sjö daga, en það er sá frestur sem gefinn er í lögum til að kæra framkvæmd kosninga.

mbl.is