Fyrsta haustlægðin lét sjá sig

Hraktir ferðamenn við Hallgrímskirkju í gær.
Hraktir ferðamenn við Hallgrímskirkju í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gul viðvörun er í gildi til miðnættis vegna hvassviðris eða storms á miðhálendinu. Gul viðvörun var einnig gefin út vegna hvassviðris eða storms á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðausturlandi í gær.

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út síðdegis í gær til að koma örmagna ferðamanni á Fimmvörðuhálsi til bjargar. „Hann var orðinn mjög kaldur og hrakinn,“ sagði Guðbrandur Örn Arnarsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Ferðamaðurinn gat gefið greinargóðar upplýsingar um hvar hann væri staddur og því gekk greiðlega að finna hann. „Það er leiðindaveður á Fimmvörðuhálsi, eins slæmt og það getur orðið. Það er viðbúið að fólk sem er að ferðast þar í dag verði örmagna, þetta eru aðstæður sem kannski ekki allir þekkja.“ Björgunarsveitirnar fengu annars fremur fáar hjálparbeiðnir í gær vegna hvassviðrisins. Flest verkefnin voru minniháttar eins og að hemja fljúgandi trampólín á Eyrarbakka.

Landeyjahöfn varð ófær upp úr hádegi

Gamli Herjólfur mun sigla til Þorlákshafnar í dag tvær ferðir. Ástæða þess að gamla ferjan er notuð en ekki sú nýja er að ekki er búið að laga hafnarmannvirki í Þorlákshöfn að nýju ferjunni, samkvæmt síðu Herjólfs. Landeyjahöfn varð ófær upp úr hádegi í gær og féllu áætlunarferðir nýja Herjólfs þangað niður það sem eftir var dagsins. Gamli Herjólfur fór til Þorlákshafnar frá Vestmannaeyjum kl. 15.30 og frá Þorlákshöfn kl. 19.15. Fyrr í gær hafði verið tilkynnt að opnað hefði verið fyrir klefabókanir í gamla Herjólf ef sigla þyrfti til Þorlákshafnar í dag.

Leik ÍBV og HK/Víkings í Pepsi Max-deild kvenna sem vera átti á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í gær var frestað vegna óveðursins. Þá samþykkti mótanefnd KSÍ ósk FH og Breiðabliks um að fresta leik þeirra í Pepsi Max-deild karla sem átti að fara fram á Kaplakrikavelli kl. 18.15 í gær þar til klukkan 18.00 í dag. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert