Hvalurinn aflífaður að beiðni dýralæknis

Mat dýralæknis var það að réttast væri að binda enda …
Mat dýralæknis var það að réttast væri að binda enda á þjáningar dýrsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindhvalurinn sem björgunarsveitarmenn og fleiri hafa verið að reyna að koma frá landi við strönd Seltjarnarness í dag var aflífaður á sjötta tímanum í dag. Þetta var gert samkvæmt mati dýralæknis Matvælastofnunar, sem taldi nauðsynlegt að binda enda á þjáningar dýrsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landshelgisgæslu Íslands, en að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið Landhelgisgæslunnar kallað út með viðeigandi búnað til þess að aflífa hvalinn. Í framhaldinu var dýrinu svo sökkt.

Mjög hafði dregið af hvalnum, sem leitaði ítrekað aftur að landi eftir að björgunarsveitarfólk hafði reynt að stýra honum frá landi. 

Um var að ræða ungt karldýr, en sjá­an­leg­ar risp­ur voru á baki þess og kýli við sporð.

Aldrei skal binda um sporð á lifandi hval

Matvælastofnun hefur komið því á framfæri með tilkynningum nú síðdegis, af gefnu tilefni, að mikilvægt sé að binda ekki undir nokkrum kringumstæðum um sporðinn á lifandi hval til þess að reyna að draga hann frá landi.

„Það er vísasta leiðin til að valda dýrinu skaða eða drekkja því,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni, sem segir mikilvægt að leyfa sérfræðingum á vettvangi hvalreka, til dæmis frá Matvælastofnun eða Hafró, að meta hvort reyna eigi björgun og hvað skuli gera.

„Tilkynna skal um hvalreka til lögreglu. Ef sjálfboðaliðar vilja aðstoða er mikilvægt að vökva dýr sem stranda. Hvalir sem stranda geta lifað í rúman sólarhring á þurru landi ef þeir eru vökvaðir. Mikilvægt er að vinna í kringum dýrin sé yfirveguð og forðast skal að valda dýrunum meiri streitu en þau eru þegar undir. T.d. á ekki að skvetta úr fötum yfir dýrin heldur frekar að hella rólega og forðast að sjór komist í öndunarop,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

mbl.is