Vilja flýta framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir tryggar samgöngur grunn þess …
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir tryggar samgöngur grunn þess að því að vel takist til við sameiningu sveitarfélaganna á Austurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna á Austurlandi vill að hönnun og framkvæmd Fjarðarheiðarganga verði flýtt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni, sem segir göngin vera „lykillinn að eflingu atvinnulífs á Austur- og Norðurlandi“.

Samgönguráðherra kynnti fyrr í mánuðinum skýrslu starfshóps um jarðgangakosti á Egilsstöðum. Var niðurstaða hópsins að með hliðsjón af ávinningi samfélags og atvinnulífs á Austurlandi í heild sé vænlegast að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði og styrkja þannig samfélagið í landshlutanum öllum með tvennum göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar annars vegar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar hins vegar.

Eru Fjarðarheiðargöng á áætlun fyrir 2. og 3. tímabili samgönguáætlunar fyrir árin 2019 – 2033. 

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna á Austurlandi leggur hins vegar áherslu á að fjármagn verði tryggt til fullnaðarhönnunar á árinu 2020, framkvæmdum verði flýtt og gert verði ráð fyrir þeim á 1. og 2. tímabili samgönguáætlunar.

„Mikilvægum áfanga var náð þegar Fjarðaheiðargöng voru sett í forgang en verkefninu er þó hvergi nærri lokið,“ er haft eftir Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði í tilkynningunni.

„Það er gríðarlega mikilvægt að framkvæmdum verði flýtt enda eru tryggar samgöngur grunnur að því að vel  takist til við sameiningu sveitarfélaganna á Austurlandi.“

Sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa samþykkt tillögu samstarfsnefndar um að íbúar fái tækifæri til að kjósa um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna þann 26. október.  Er íbúakosningin er unnin í samræmi við stefnu Alþingis og ríkisstjórnar í byggða- og samgöngumálum um sameiningu sveitarfélaga.

mbl.is