Fylgi flokkanna breytist lítið

Fylgi stjórnmálaflokkanna breytist lítið.
Fylgi stjórnmálaflokkanna breytist lítið. mbl.is/Árni Sæberg

Litlar breytingar eru á fylgi stjórnmálaflokkanna að frátöldu fylgi Pírata sem minnkar um þrjú prósentustig og Samfylkingin bætir við sig tveimur, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem greint frá á Rúv

Miðflokkurinn mælist með rúmlega 13 prósenta fylgi, Vinstri-græn með tæp 13 prósent og Viðreisn með rúmlega 11 prósenta fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi, tæplega 22 prósent, og Samfylkingin næstmest eða tæp 16 prósent.  

Um helmingur þeirra sem taka afstöðu segist styðja ríkisstjórnina og eykst stuðningur við hana lítillega milli mánaða. 

Í kringum Klausturmálið minnkaði fylgi Miðflokksins en mælist nú meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, sem var tæp 11 prósentustig.

Átakalínurnar að koma í ljós

Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður, og Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur ræddu niðurstöðu könnunarinnar sem og þriðja orkupakkann í Kastljósþætti á Rúv í kvöld. 

Þau voru sammála um að umræðan um þriðja orkupakkann væri eitt af þeim málum sem hreyfðu við Íslendingum. Það hefði hugsanlega haft áhrif á niðurstöðu könnunarinnar. 

„Það er hiti í stjórnmálum um allar jarðir og hefur verið undanfarið. Það er merkileg þróun,“ sagði Guðmundur Steingrímsson. Hann nefndi að uppgangur væri í stjórnmálastefnum sem byggðust á tortryggni í garð annarra og hræðsluáróðri. Slíkir stjórnmálaflokkar fengju um 20% fylgi víða um heim og það kæmi sér ekki á óvart að slíkar tölur sæjust hér á landi líka.

Stefanía benti á að stjórnmálaumræðan í Bretlandi hefði smitast yfir til okkar. Fólk tæki einnig upp orðræðu í Bandaríkjunum. „Samfélagsgerðin er að breytast, atvinna fólks til framtíðar er að breytast. Fólk tekur afstöðu til aðflutnings fólks. Þetta er suðupottur fyrir ný og gömul átök. Við eigum eftir að sjá gömul slagorð eins og Ísland fyrir Íslendinga áfram,“ segir Stefanía. 

Guðmundur benti á að átakalínur fyrir komandi vetur á Alþingi væru að koma í ljós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert