Þjófar og ökumenn í vímu

Lögreglan handtók mann í austurhluta Reykjavíkur (hverfi 108) á níunda tímanum í gærkvöldi sem er grunaður um þjófnað en hann var með mikið magn af vörum sem hann gat ekki gert grein fyrir. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Í nótt var tilkynnt til lögreglunnar um yfirstandandi  innbrot í íbúðarhúsnæði í Kópavoginum (hverfi 203).  Tveir menn voru handteknir grunaðir um innbrotið og eru þeir vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Tveir menn voru síðan handteknir á Skólavörðuholtinu seint í gærkvöldi en þeir eru grunaðir um þjófnað úr bifreið og eignaspjöll. Mennirnir eru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. 

Tilkynnt um þjófnað á fartölvu frá veitingahúsi í miðborginni í nótt og voru tveir menn handteknir skömmu síðar með þýfið og eru þeir vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. 

Lögreglunni barst ábending um ölvaðan mann sofandi í bifreið í nótt og vakti lögregla manninn. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer því klippt af.  Þar sem bifreiðinni var lagt ólöglega var hún fjarlægð með dráttarbifreið, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Tveir þeirra voru undir áhrifum fíkninefna en tveir áfengis. Einn þeirra hafði þar að auki verið sviptur ökuréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert