Víðtækar götulokanir og mikil öryggisgæsla

Morgunblaðið/Kristinn Magnússson Fundarstaðurinn Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun hitta fyrir …
Morgunblaðið/Kristinn Magnússson Fundarstaðurinn Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun hitta fyrir íslenska ráðamenn í Höfða. Mörgum götum verður lokað í nágrenninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, kemur til landsins í dag. Dagskrá heimsóknarinnar var í gærkvöldi enn nokkuð óljós að öðru leyti en að Pence muni sækja málþing um viðskipti milli ríkjanna tveggja auk fundar með forseta Íslands og utanríkisráðherra, sem haldinn verður klukkan 14 í Höfða.

Afar líklegt má telja að varaforsetinn muni einnig vilja ræða öryggis- og varnarmál við íslenska ráðamenn, en viðvera Bandaríkjahers hér við land hefur sl. vikur og mánuði aukist mjög. Þá mun Pence einnig hitta forsætisráðherra áður en hann heldur aftur af landi brott í kvöld. Munu þau hittast á öryggissvæði Landhelgisgæslu Íslands á Keflavíkurflugvelli.

Greint hefur verið frá því í Morgunblaðinu að íslenska lögreglan og bandarískar öryggissveitir verða með gríðarlegan viðbúnað í tengslum við heimsóknina. Mun meiri en sést hefur hér á landi í langan tíma. Þannig munu vel á annað hundrað íslenskir lögreglumenn frá hinum ýmsu embættum sinna öryggisgæslu, þ.ám. öll sérsveit ríkislögreglustjóra. Þá munu einnig á þriðja hundrað Bandaríkjamenn, vopnaðir fulltrúar frá leyniþjónustustofnuninni US Secret Service, sem sér um öryggi forseta og varaforseta Bandaríkjanna, og hermenn vera í fylgdarliði Mikes Pence. Að auki mun bæði sprengjusveit og flugdeild Landhelgisgæslunnar verða til taks. Ekki er talið ólíklegt að þyrla verði einnig nýtt til að fylgjast með aðgerðum úr lofti.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir götum víða í Reykjavík verða lokað vegna heimsóknarinnar, einkum í námunda við Höfða. Verður hluta Sæbrautar, Borgartúns, Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar lokað. „Þetta er mikið inngrip og það verða miklar tafir,“ segir hann og bendir á að lokað verði snemma og verði svo lengi dags. „Þetta er flókin aðgerð sem kallar á mikinn liðsstyrk frá öðrum lögregluembættum. Verkefnin eru mörg og öryggiskröfur miklar,“ segir Ásgeir Þór enn fremur í umfjöllun um heimsókn Pence í Morgunblaðinu í dag.

Þá má einnig búast við talsverðu inngripi á Reykjanesbraut þegar fjölmenn bílalest varaforseta Bandaríkjanna fer þar um.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka