Sprangaði um á adamsklæðum

Keppt er í nektarhlaupi á Hróarskelduhátíðinni en maðurinn sem sprangaði …
Keppt er í nektarhlaupi á Hróarskelduhátíðinni en maðurinn sem sprangaði um í Reykjavík án klæða var einfaldlega í vímu. AFP

Alls komu 106 mál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan 19 til sex í morgun og gista sex einstaklingar fangageymslur lögreglunnar. Má þar nefna nokkur heimilisofbeldismál, sjálfsvígstilraunir, líkamsárásir, akstur undir áhrifum vímuefna, skemmdarverk og mann sem afklæddi sig úti á götu og gekk um á adamsklæðum.

Ef fyrst er farið yfir helstu verkefni lögreglunnar á stöð 1, en hún sinnir útköllum á Seltjarnarnesi, vestur-, mið- og austurbæ.

Tilkynnt var um tvær konur fastar í lyftu í verslunarhúsnæði klukkan 19:15 en lögreglan leysti þær úr prísundinni.

Klukkan 19:16 var tilkynnt um æstan mann sem var til ama. Lögreglan ræddi við manninn og gekk hann síðan sína leið.

Klukkan 19:58 var lögreglunni tilkynnt um eignaspjöll en búið var að úða gylltri málningu á tvær bifreiðir. Samkvæmt dagbók lögreglunnar var gerandi farinn af vettvangi en handtekinn í öðru máli seinna um kvöldið eða klukkan 22:39 þegar tilkynnt var um mann henda hlutum út á götu. Maðurinn var handtekinn en skór hans voru allir úti í gylltri málningu og reyndist þetta vera skemmdarvargurinn frá því fyrr um kvöldið.  

Klukkan 22:26 var tilkynnt um ofurölvi mann liggjandi í götunni. Lögreglan keyrði manninn heim.

Klukkan 23:50 var ökumaður stöðvaður vegna gruns um ölvunarakstur. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Klukkan 00:20 var lögreglan látin vita af æstum manni sem var til ama en þegar lögregla kom á vettvang var hann farinn og ekkert frekar af honum að segja.

Klukkan 00:47 var ofurölvuðum manni ekið heim af lögreglu en hann hafði brotið rúðu í miðbænum. Áður en haldið var heim fékk lögregla upplýsingar um manninn vegna eignaspjallanna.

Klukkan 03:29 klæddi maður í annarlegu ástandi sig úr öllu úti á götu og gekk um á adamsklæðunum. Lögreglan handtók manninn og gistir hann fangageymslur þar til af honum rennur víman.

Klukkan 05:09 var maður handtekinn vegna ástands og gistir hann fangageymslu þar til af honum rennur víman. 

Fleiri verkefni voru á varðsvæði lögreglustöðvar 1 sem tengdust m.a. hávaða, ölvun, heimilisofbeldi og sjálfsvígshótunum.

Lögreglumenn á stöð 2 sem sinna Hafnarfirði og Garðabæ sinntu einnig fjölda verkefna á vaktinni. 

Klukkan 21:26 fékk lögreglan tilkynningu um ágreining milli skyldmenna en málið var afgreitt á vettvangi.

Klukkan 00:26 var tilkynnt um hávaða frá samkvæmi. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við viðkomandi sem lofuðu að lækka.

Klukkan 00:20 stöðvaði lögreglan ökumann sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Klukkan 00:47 var maður handtekinn vegna gruns um líkamsárás og gistir hann fangageymslu lögreglunnar. 

Verkefni lögreglumanna á stöð 3 en þeir sinna útköllum í Kópavogi og Breiðholti:

Klukkan 21:36 voru skráningarnúmer tekin af tveimur bifreiðum þar sem þær voru óskoðaðar.

Klukkan 00:06 var lögreglunni tilkynnt um heimilisofbeldi og hótanir en málið var afgreitt á vettvangi.

Klukkan 00:21 var kvartað undan hávaða frá samkvæmi og að börn væru í íbúðinni. Lögreglan afgreiddi málið á vettvangi og tilkynnti það til barnaverndaryfirvalda.

Klukkan 03:57 var tilkynnt um heimilisofbeldi/líkamsárás til lögreglunnar sem afgreiddi málið á vettvangi þar sem gerandi var farinn þegar lögreglan kom á heimilið.          

Stöð 4 Grafarvogur, Mosfellsbær og Árbær:

Klukkan 01:30 var tilkynnt um heimilisofbeldi/líkamsárás og var einn handtekinn. Hann gistir fangageymslu lögreglunnar. 

Ýmis önnur verkefni voru tilkynnt á varðsvæði lögreglustöðvar 4 á vaktinni frá klukkan 19 til sex í morgun. Meðal annars tvær sjálfsvígstilraunir, aðfinnsluvert  aksturslag o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert