Skattalækkun, jafnvægi og gott samspil

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 bera með sér jafnvægi í ríkisfjármálum, en hann telur skattalækkun sem boðuð er fyrr en áætlað var stærstu tíðindin. Hann segir að nú hafi komið í ljós að skynsamlegt hafi verið að „búa í haginn“ þegar vel áraði og skila góðum afgangi.

„Stóru línurnar í þessu fjárlagafrumvarpi fjalla um skattalækkun, jafnvægi í ríkisfjármálum, gott samspil stöðunnar á vinnumarkaði við framkvæmd peningastefnu og opinber fjármál. Það birtist meðal annars í lækkun vaxta skömmu eftir gerð kjarasamninga sem er kannski sögulega ekki viðbúið á Íslandi en ánægjulegt að sjá gerast,“ segir Bjarni.

„Þetta er fjárlagafrumvarp sem kemur í kjölfarið á löngu hagvaxtarskeiði og það sýnir sig núna að það var skynsamlegt að búa í haginn, skila góðum afgangi þegar góðu árin voru að líða, vera í aðstöðu til að taka í fangið slakann í hagkerfinu og fara ekki í mikla skuldasöfnun fyrir það eitt að það hægi á í þjóðarbúskapnum,“ segir Bjarni.

Skilji eftir svigrúm fyrir innviðafjárfestingar

Áherslur fjárlagafrumvarpsins í opinberri fjárfestingu liggja ekki síst í framlögum til samgöngumála, rannsóknarstarfs og umhverfis- og loftslagsmála. „Þegar við skoðum útgjaldaþróun undanfarin ár, ekki síst í tíð þessarar ríkisstjórnar, sjáum við að það hefur verið forgangsraðað til heilbrigðis- og velferðarmála. Bætur almannatrygginga hafa hækkað mjög verulega og framlög til heilbrigðismála sömuleiðis,“ segir Bjarni og nefnir að með hliðsjón af hagrænni skiptingu útgjalda í frumvarpinu sé mikilvægt sé að skilja eftir svigrúm fyrir innviðafjárfestingar. 

„Þær eru grunnur að lífskjarasókn í framtíðinni. Þess vegna leggjum við nú áherslu á að auka fjármuni inn í vegamál, en líka í aðra fjárfestingu á borð við heilbrigðismál og nýsköpun. Ég gæti nefnt fleiri flokka á borð við umhverfismálin,“ segir hann. „Ef menn gá ekki að sér, þá verður ekkert eftir til fjárfestinga í innviðum. Ég tel að við höfum fundið gott jafnvægi hvað þetta snertir,“ segir Bjarni. Spurður hvort hann hefði viljað geta lagt áherslu á framlög til fleiri málaflokka á þessum tímapunkti kveðst Bjarni upplifa viðkvæmt jafnvægi í augnablikinu.

„Ákveðin hagræðing mun þurfa að eiga sér stað í ferðaþjónustu til dæmis. Smærri fyrirtæki og atvinnurekstur á sumum sviðum, ég nefni sem dæmi veitingageirann, hann er í vissum erfiðleikum, og við vildum kannski ná hraðari árangri í því að létta undir með einyrkjum og smærri atvinnurekendum með einföldun regluverks, minni gjaldtöku og lægri sköttum. Þótt það séu tekin skref í þessu fjárlagafrumvarpi, þá þurfum við að fylgja þeim eftir með enn meiri aðgerðum,“ segir Bjarni.

Hann vonar að á næstu árum verði hægt að breyta í veigamiklum þáttum samskiptum ríkis og einkageirans með stafrænum lausnum og minni reglubyrði en er í dag.

Nýti kosti einkaframtaksins í auknum mæli

Spurður hvort í fjárlagafrumvarpinu felist einhver neikvæð tíðindi að hans mati segir hann fulla ástæðu til að spyrja spurninga um samspil opinbers rekstrar og einkarekstrar.

„Umfang hins opinbera er mikið á Íslandi og þegar við lítum til baka og sjáum útgjaldavöxtinn inn á einstök svið er ljóst að við munum ekki geta haldið áfram á hverju ári að bæta jafn miklu við í stóru málaflokkana. Ég nefni hér heilbrigðismál og velferðarmál sérstaklega af því aukningin þar á síðustu árum hefur verið mjög mikil,“ segir Bjarni.

„Það þýðir að við þurfum að fara að leggja áherslu á aukna framleiðni, meiri afköst hjá ríkinu. Við hljótum að taka til skoðunar í þeirri vinnu leiðir til að nýta kosti einkaframtaksins í auknum mæli,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert