Þyrlan lenti á Hamrinum

Þoka og skyggni gerðu áhöfn þyrlunnar erfitt fyrir.
Þoka og skyggni gerðu áhöfn þyrlunnar erfitt fyrir. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Áhöfnin á þyrlu Landhelgisgæslu Íslands, TF-GRO, fór í tvö útköll í gær. Fyrst til Akureyrar þar sem farþegi skemmtiferðaskips var alvarlega veikur og svo til Vestmannaeyja. Skyggnið á flugvellinum í Vestmannaeyjum var svo slæmt að þyrlan þurfti að lenda á Hamrinum í Eyjum.

Útkallið til Vestmannaeyja var hefðbundið sjúkraflug sem hefði við eðlilegar aðstæður verið sinnt af áhöfn sjúkraflugvélar Mýflugs. En þar sem skyggnið var sama sem ekkert á flugvellinum í Vestmannaeyjum þurfti að senda þyrluna, segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is.

Þyrlan flaug inn á Hamarinn í lítilli hæð og lenti á miðjum veginum þar sem sjúkrabíll beið með sjúklinginn. Þrátt fyrir mikla þoku og úrkomu gekk útkallið vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert