Vala gefur ekki kost á sér

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.
Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, hyggst ekki gefa kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins en hún hafði áður sagt að hún væri að hugsa málið. Þetta kemur fram í færslu á facebooksíðu hennar.

„Ég hef fengið ótrúlega hvatningu, víða að úr flokknum, til að bjóða mig fram til ritara Sjálfstæðisflokksins, já og líka frá fólki sem hefur ekki atkvæðisrétt á flokksráðsfundinum. Ég hef átt skemmtileg samtöl vítt og breitt um landið, um stöðu stjórnmála og flokksins okkar. Ég heyri að fólk er ánægt með störf mín sem formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og ég nýt trausts,“ segir hún.

Vala segir að hún hafi ákveðið að vel ígrunduðu máli að halda áfram á þeirri braut sem hún hafi markað með Landssambandi sjálfstæðiskvenna fremur en að gefa kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins.

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir hvatninguna og stuðninginn. Besta niðurstaðan er samt sem áður að ég hef átt gott samtal við margt af flokksfólki mínu sem mun nýtast mér í starfi mínu. Ég tel jafnframt að það hafi skapast góður grundvöllur fyrir samstarfi landssambandsins við önnur sjálfstæðisfélög um land allt.“

mbl.is