Sigmundur tekur undir með Taalas

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er áhugavert að fylgjast með viðbrögðum öfgamanna við skynsemis- og vísindahyggju í loftslagsmálum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á facebooksíðu sinni þar sem hann bregst við yfirlýsingu Petteris Taalas, framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), í dag þar sem framkvæmdastjórinn sagði að fréttaflutningur af viðtali við hann í finnsku tímariti nýverið byggðist á valkvæðri túlkun á orðum hans um loftslagsmál.

„Einhverjir hafa gengið svo langt að koma þeim skilaboðum til framkvæmdastjóra Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar að fullyrt hafi verið á Íslandi að hann hafi dregið í efa nauðsyn alþjóðlegra aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Ég hef ekki séð nokkurn mann halda því fram,“ segir Sigmundur enn fremur.

„Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að menn sýndu yfirvegun og litu til vísinda en létu ekki stjórnast af hræðsluáróðri og angist. Það er hægt að taka undir hvert orð sem haft hefur verið eftir honum og yfirlýsinguna þar sem hann áréttar afstöðu sína.“

mbl.is