Kynnti skýrslu um valdbeitingu á vinnustað

Ásta Snorradóttir nefndarformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður aðgerðarhóps, afhentu …
Ásta Snorradóttir nefndarformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður aðgerðarhóps, afhentu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, skýrsluna, ræddu niðurstöður hennar og þær aðgerðir sem hún kallar á Ljósmynd/Stjórnarráðið

Rúmlega tveir af hverjum tíu hafa orðið fyrir einelti á vinnustað og konur eru líklegri til að greina frá einelti. Þetta kemur fram í skýrslunni Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðlis eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók á móti og kynnti ríkisstjórninni í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.

Í skýrslunni, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, kemur fram að fatlaðir og einstaklingar með skerta starfsgetu séu mun líklegri til að hafa reynslu af einelti en einstaklingar án skerðingar eða fötlunar.

Rúmlega 15% þátttakenda sem tóku þátt í rannsókninni greindu frá því að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni einhvern tíma á starfsævinni. Í ljós kom að fatlaðir og einstaklingar með skerta starfsgetu eru líklegri til að hafa orðið fyrir slíkri áreitni. Þá eru þeir með erlent ríkisfang síður líklegir til að greina frá áreitni í sinn garð.

Mikill meirihluti taldi að #Metoo hreyfingin hafi haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og voru konur jákvæðari í garð hreyfingarinnar en karlar.

Aðgerðarhópur á að vinna gegn ofbeldishegðun

Ásmundur Einar skipaði í lok febrúar 2018 nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Nefndinni var sömuleiðis falið að meta aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum. Hlutverk hennar var þríþætt:

Að kanna reynslu starfsmanna af kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum sem þolendur, vitni eða gerendur.

Að kanna meðal vinnuveitenda með hvaða hætti þeir hafa brugðist við kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum. Þar á meðal til hvaða aðgerða hafi verið gripið.

Að kanna meðal vinnuveitenda hvort þeir hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sínum. Þar með talið áætlun um forvarnir þar sem meðal annars komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum þeirra. Eins til hvaða aðgerða skuli gripið ef slík hegðun á sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustöðum þeirra eða ef þeir verða varir við slíkt á vinnustað sínum.

Þá skipaði Ásmundur Einar aðgerðarhóp í ágúst í fyrra í því skyni að vinna gegn kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum. Hópurinn var skipaður til tveggja ára og er ætlað að fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir slíka hegðun. Mun aðgerðarhópurinn taka mið af skýrslunni í vinnu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert