Hamingjan lykilatriði

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Einhverjum hefði kannski þótt furðulegt fyrir nokkrum árum ef fjármálaráðherra væri umhugað um hamingju,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann steig í pontu á ráðstefnu um vel­sæld­ar­hag­kerfi í Há­skóla Íslands í morg­un.

Bjarni talaði um mikilvægi OECD og sagði það gott að fá „bunka af gögnum þaðan í fangið“ eins og hann orðaði það og leit í áttina að Ang­el Gurria, fram­kvæmda­stjóra OECD, sem sat á fremsta bekk í hátíðarsal HÍ.

Gurria er staddur hér á landi í þeim til­gangi ann­ars veg­ar að taka þátt í ráðstefn­unni Há­skóla Íslands. Hins veg­ar ligg­ur leið hans í fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið í dag þar sem hann kynn­ir OECD Economic Sur­vey of Ice­land, út­tekt sem unn­in er og kynnt á tveggja ára fresti.

Fram kemur í samantekt nefndar forsætisráðherra um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði að mörg ríki og alþjóðastofnanir hafi útbúið söfn mælikvarða um það efni. 

Þróun slíkra mælikvarða er, samkvæmt vinnu nefndarinnar, skref í þá átt að tryggja sameiginlegan skilning á því hvaða þættir gera líf okkar betra. Alls eru mælikvarðarnir í aðal- og undirflokkum 39 en þeir eru í þremur flokkum; félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum.

Fjármálaráðherra sagði dæmisögu af því þegar sonur hans byrjaði í skóla fyrir fimmtán árum:

„Þegar nokkrar vikur voru búnar af skólanum hitti ég skólastjórann og spurði hvernig stráknum gengi í skólanum. Hann svaraði því til að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur, ef strákurinn væri hamingjusamur myndi þetta ganga,“ sagði Bjarni.

Ráðherra talaði um að mælikvarðar á borð við hagvöxt væru enn mikilvægir en auk þess þyrfti að víkka sjóndeildarhringinn. Hann minntist einnig á að staða Íslands væri góð, ellefu árum eftir bankahrunið, en sagði að það væri aldrei tími fyrir andvaraleysi.

Horfi meira í stóru málin

Bjarni fór yfir það að honum þætti margt hafa breyst til betri vegar síðan hann settist á þing fyrir sextán árum. Þá, árið 2003, sat hann í fjárlaganefnd.

„Við sátum þarna ellefu á fundi og einn fundarmanna vildi ræða eitthvert smáatriði,“ sagði Bjarni og bætti við að þá hefði allur umræddur fundur fjárlaganefndar farið í það smáatriði.

„Núna tel ég að við hugsum meira um stóru málin og lengra fram í tímann,“ sagði Bjarni og taldi það gott. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert