Þurfi að líta á aðra þætti en hagvöxt

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á rástefnunni í …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á rástefnunni í Háskóla Íslands í dag. Á bak við þau situr Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG og einn nefndarmanna sem vann skýrslu um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilsa, húsnæði, menntun og öryggi. Allt eru þetta þættir sem fólk telur mikilvæga sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á ráðstefnu um velsældarhagkerfi í Háskóla Íslands í morgun. Mæla þurfi aðra þætti en efnahagslega þegar fjallað er um hagsæld og lífsgæði þjóðar.

Á ráðstefnunni var fjallað um samstarf Íslands, Skotlands og Nýja Sjálands um mótun velsældarhagkerfa undir yfirskriftinni Wellbeing Economy Governments (WEGo).

Samstarfið felur í sér mótun sameiginlegrar sýnar á hvernig ríki geta aukið vellíðan, jöfnuð og sjálfbæran vöxt.

Katrín sagði sjálfbærni lykilhugtak þegar hagvöxtur og hamingja væru nefnd í sömu andrá. 

Ríkisstjórnin hefur tekið til umfjöllunar niðurstöður nefndar forsætisráðherra um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Nefndin skilaði tillögu að 39 félagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum mælikvörðum sem eru lýsandi fyrir hagsæld og lífsgæði á Íslandi.

Katrín benti á samstarf Íslands, Skotland og Nýja-Sjálands á þessu sviði undanfarið ár og taldi að það myndi aukast. Áskoranir landanna væru að mörgu leyti svipaðar. 

„Auk þess eru konur forsætisráðherrar í öllum löndunum,“ sagði Katrín og uppskar mikinn hlátur.

Hún bætti því við að það væri ekki nóg að hugsa eingöngu um hagvöxt eða hugað væri að því hvernig landið stæði sig, einnig þyrfti að hugsa um allt sem hefði áhrif á líf fólks. Þess vegna þyrfti að mæla það sem hefði áhrif á líf fólks, ekki væri nóg að mæla bara stærð og vöxt hagkerfisins.

mbl.is