15 ára grunaðir um þjófnað, innbrot og skemmdarverk

mbl.is/Hari

Tveir 15 ára drengir voru teknir af lögreglunni  í Breiðholtsskóla fyrir húsbrot á tíunda tímanum í gærkvöldi. Höfðu þeir komist yfir lykil að skólanum og endurtekið leikinn nokkrum sinnum yfir helgina þannig að innbrotskerfið fór í gang. Piltarnir eru einnig grunaðir um þjófnað og skemmdarverk. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru foreldrar kallaðir til og barnavernd tilkynnt málið.

54 mál voru bókuð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan 17 í gær þangað til klukkan fimm í morgun. Fjórir eru vistaðir í fangageymslu. Þar á meðal maður sem grunaður er um að hafa hrint konu fram af svölum fjölbýlishúss í gærkvöldi.

Lögreglunni barst tilkynning um tvo menn að slást utandyra í miðborginni síðdegis í gær og voru þeir sagðir hafa dregið upp hnífa. Báðir menn handteknir og við leit á þeim fundust hnífar sem hald var lagt á. Mönnunum sleppt eftir skýrslutökur.

Fjórir voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna á vakt lögreglunnar í gærkvöldi og nótt.

Brotist var inn í bifreið í Breiðholti í gær og ýmsum verðmætum stolið. Málið er í rannsókn og unnið eftir vísbendingum. Á tíunda tímanum í gærkvöldi óskaði starfsfólk vínveitingastaðar í efri byggðum borgarinnar eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs manns sem var að áreita aðra og reyna að efna til slagsmála. Lögreglan vísaði manninum í burtu.

mbl.is