Fundu yfir 500 kannabisplöntur í kjallara

Kannabisplöntur. Mynd úr safni.
Kannabisplöntur. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögreglan á Selfossi kom í gær upp um kannabisræktun, eftir að lögreglumenn stöðvuðu bílstjóra fólksbíls „með það að leiðarljósi að kanna með ástand og ökuréttindi hans,“ að því er segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Við afskipti fundu lögreglumenn hins vegar mikla kannabislykt af manninum og játaði hann að hafa neytt  kannabisefna.

Eitt leiddi af öðru og fóru lögreglumenn með manninn að heimili hans, en þar fannst einnig sterk kannabislykt. Maðurinn heimilaði leit á heimili sínu og framvísaði nokkru magni af kannabisefnum. Við nánari skoðun fann lögregla svo kannabisræktun í kjallara hússins og gekkst maðurinn við því að eiga hana.

„Um var að ræða nokkuð vel útbúna aðstöðu til kannabisræktunar þar sem voru 525 kannabisplöntur á mismundandi ræktunarstigum.“ Segir lögregla jafnframt hafa vaknað grun um að rafmagn hafi verið leitt fram hjá rafmagnsmæli og var því fenginn rafmagnssérfræðingur á staðinn sem staðfesti að svo væri.

Telst málið upplýst og á maðurinn von á kæru fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna, vörslu fíkniefna, framleiðslu kannabisefna, rof á innsigli rafmagnsmælis og fyrir orkuþjófnað.

mbl.is