Sólskinsstundametið frá 1929 fellur ekki í sumar

Ferðamenn hafa þurft að verjast rigningunni undanfarna daga.
Ferðamenn hafa þurft að verjast rigningunni undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú liggur ljóst fyrir að nýtt sólarmet verður ekki sett í Reykjavík á þessu sumri. Rigningatíðin að undanförnu hefur séð til þess. Sem kunnugt er stendur hið svokallaða veðurstofusumar frá 1. júní til 30. september og því eru aðeins fáeinir dagar eftir. Trausti Jónsson veðurfræðingur tók nýlega stöðuna. Sólskinsstundafjöldi frá og með 1. júní til 17. september telst 804,9 stundir. Miðað við almanakið, önnur sumur frá 1. júní til 17. september, er núlíðandi sumar í þriðja sólríkasta sæti. Það eru aðeins sumrin 1928 (826,8 stundir) og 1929 (858,0 stundir) sem státa af hærri tölum.

Gæti marið þriðja sætið

Fáein sumur önnur eiga ennþá möguleika á að sigla fram úr þessu, en ekki mörg því sá fjöldi sem þegar hefur mælst tryggir sjöunda sætið. Að meðaltali mælast um það bil 3,4 sólskinsstundir á dag í Reykjavík eftir 17. september. Yrðu sólskinsstundir í meðallagi til loka mánaðar yrði lokatalan 854,3 – og myndi merja 3. sæti – sjónarmun á undan sumrinu 1927 (853,6 stundir) og ekki langt neðan við 2. sætið (1928 með 861,9 stundir). Ekki er nokkur von til þess að ná 1. sætinu af sumrinu 1929 (894,0 stundir).

„Það eru sum sé þrjú sumur í röð sem hafa helgað sér þrjú efstu sætin í 90 ár, 1929, 1928 og 1927, þar rétt fyrir neðan eru tvö nýleg sólarsumrin 2012 og 2011, í sjötta sætinu er svo sumarið 1924,“ segir Trausti.

Árið í heild stendur líka vel. Heildarsólskinsstundafjöldinn er um það bil búinn að jafna ársmeðaltal síðustu tíu ára þó þrír mánuðir séu eftir af árinu og summan er nú þegar komin 100 stundir fram úr ársmeðaltalinu 1961 til 1990.

Sumarhitinn í Reykjavík situr nú í 9. til 11. hlýjasta sæti. Meðalhiti þess það sem af er er 11,0 stig. Ekki er líklegt að sú röðun breytist mikið, að mati Trausta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »