Tókst ekki að upplýsa meintan leka

mbl.is/Eggert

Rannsókn ríkissaksóknara á meintum leka á viðkvæmu trúnaðarskjali lögreglunnar, sem rataði í hendur verjanda í svonefndu EuroMarket-máli, var hætt 3. júlí í sumar án þess að upplýst væri hver hefði gerst sekur um að leka skjalinu.

„Rannsókn málsins var hætt/lokið 3. júlí sl. án þess að upplýst væri hver hefði framið ætlað þagnarskyldubrot,“ segir í skriflegu svari Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara við fyrirspurn frá mbl.is. EuroMarket-málið kom upp í desember 2017 og snýst um meint fjársvik, peningaþvætti og fíkniefnainnflutning hingað til lands.

Fjallað var um það í dag að héraðssaksóknari hefði ákært pólsk hjón vegna rúmlega 60 milljóna króna peningaþvættis en ákæran er hluti EuroMarket-málsins sem er ein umfangsmesta rannsókn lögreglu hér á landi á skipulagðri glæpastarfsemi og hefur verið unnið að rannsókninni í samstarfi við evrópsk lögregluyfirvöld.

Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins í október á síðasta ári kom fyrst upp grunur um að verjandi meints höfuðpaurs í EuroMarket-málinu hefði skjalið undir höndum um áramótin 2017/2018 og hann síðan endanlega fengist staðfestur þegar verjandinn, Steinbergur Finnbogason, hefði lagt það fram fyrir dómi vorið eftir.

Skjalið er minnisblað þar sem talin upp ýmis sakamál sem lögreglan hefur haft meintan höfuðpaur grunaðan um að tengjast undanfarin ár. Steinbergur taldi minnisblaðið sýna að skjólstæðingur hans hefði fengið óeðlilega meðferð hjá lögreglunni.

Reynt var að fá Steinberg til þess að upplýsa hver hefði komið skjalinu með úrskurði dómara til hans í byrjun febrúar en án árangurs. Fjögur embætti hafa komið að rannsókn EuroMarket-málsins og höfðu aðgang að minnisblaðinu, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóri og tollstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert