Orrustuþotur lentar í Keflavík

Ítölsk F-35 í Keflavík.
Ítölsk F-35 í Keflavík. Ljósmynd/NATO

Ítalskar orrustuþotur af gerðinni F-35 lentu í Keflavík fyrr í dag. Er koma flugsveitarinnar hingað til lands liður í loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins (NATO), en alls verða sex orrustuþotur hér við land næstu þrjár vikurnar.

Í tilkynningu sem Atlantshafsbandalagið birtir á heimasíðu sinni kemur meðal annars fram að þetta sé í fyrsta skipti sem F-35 orrustuþotur, sem flokkast undir 5. kynslóð orrustuþotna, eru notaðar til gæsluverkefna utan átakasvæða. Þá er þetta í fimmta skipti sem ítalskar hersveitir taka að sér verkefni sem þetta fyrir NATO.

Alls taka um 140 liðsmenn ítalska flughersins þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi. Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 26. september til 4. október.

Loftrýmisgæslan verður í samræmi við loftrýmisáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland og fyrirkomulagið verður með sama hætti og verið hefur.

Flugsveitin verður með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en þetta er í annað sinn á þessu ári sem ítalski flugherinn er hér á landi við loftrýmisgæslu. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok október.

Þá tóku í mars sl. 140 liðsmenn ítalska flughersins þátt í loftrýmisgæslu við Ísland. Kom sveitin þá með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.

Um miðjan júlí síðastliðinn kom flugsveit bandaríska flughersins til að sinna loftrýmisgæslu við Ísland. Alls tóku 110 liðsmenn flughersins þátt í verkefninu. Flugsveitin kom til landsins með fimm F-16 orrustuþotur. Verkefninu lauk í ágústlok.

Atlantshafsbandalagið hefur birt ljósmyndir sem sýna ítölsku flugsveitina í Keflavík. Voru þær teknar skömmu eftir komu þeirra fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert