Sala Íslandsbanka gæti fjármagnað samgöngusáttmála

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

„Við erum ekki komin á þann stað að útfæra þessa gjaldtöku heldur erum við einmitt að segja að gjaldtaka á umferð, ökutæki og eldsneyti sé til heildarendurskoðunar og við sjáum fyrir okkur í framtíðinni að gjald verði frekar tekið af notkun samgöngumannvirkja en af dísillítrum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður um útfærslu flýti- og umferðargjalda sem eiga að koma í stað bensín- og olíugjalda samkvæmt samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

„Þessi þróun er þegar byrjuð, við gáfum eftir 3 milljarða króna í virðisaukaskattskerfinu í fyrra vegna innflutnings á vistvænum bílum og eigendur rafmagnsbíla eru ekki að mæta á bensínstöðvar eða að greiða eldsneytisgjald,“ bætir hann við.

Bjarni segir að rafmagnsbílar njóti mikilla ívilnana í dag. Af þeim séu til að mynda engin aðflutningsgjöld greidd, það sé veittur mikill afsláttur af virðisaukaskatti vegna þeirra og eigendur þeirra taki ekki þátt í greiðslu eldsneytisgjalda og séu þannig undanþegnir megintekjustofnum vegna samgönguframkvæmda. „Þetta kallar á heildarendurskoðun,“ segir hann.

Á enn eftir að útfæra hvernig gjaldtaka fer fram

Þá bætir hann við að engin ákvörðun hafi verið tekin um það með hvaða hætti umferðarskattar verði lagðir á enda séu margar útfærslur í boði. Hann er þó hlynntur því að nota tæknina sem mest.

„Við sjáum ákveðna leið farna í Vaðlaheiðagöngunum, önnur leið var farin í Hvalfjarðargöngunum og það eru alþekktar leiðir víða um lönd með mismunandi útfærslum. Þetta er ennþá óútfært en eftir því sem menn ætla að fylgjast nákvæmar með mönnum þá er ljóst að það koma upp persónuverndarsjónarmið,“ útskýrir hann og bætir við:

„Eitt sem ég hef verið að spyrja mig er hvort að eigendur bíla geti hreinlega skilað af sér stöðu kílómetramælis á tilteknum stöðum og það myndi þá lítið hafa með það að gera hvar menn hafa verið heldur bara hversu mikið þeir hafa verið að aka á vegakerfinu.“

Sala Íslandsbanka möguleg fjármögnunarleið

Í samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna sex eru gert ráð fyrir því að framlög ríkisins vegna hluta fjármögnunarinnar byrji á árinu 2022 ef að áform um framkvæmdarhraða ganga eftir. „Þá er spurningin að hve miklu leyti menn ætla að treysta á slíka gjaldtöku og að hve miklu leyti menn ætla að koma með aðra fjármögnun,“ segir hann.

„Þegar menn lesa samkomulagið þá er alveg augljóst að við erum að halda því opnu að það verði aðrir möguleikar til fjármögnunar til staðar. Ég hef nefnt dæmi um fjármögnunarleið sem ríkið getur augljóslega sótt í sem er að losa um eignarhald á fjármálafyrirtækjum og þannig aukið getu sínu til að fara í stofnvegaframkvæmdir,“ segir hann, en Bjarni sagði í vikunni að hann vildi hefja sölu á Íslandsbanka strax í næstu viku.

Keldnalandið hluti af 45 milljarða framlagi ríkisins

Gert er ráð fyr­ir að fjár­fest verði fyr­ir 120 millj­arða króna vegna samkomulagsins. Ríkið muni leggja fram 45 millj­arða, sveit­ar­fé­lög­in 15 millj­arða og að sér­stök fjár­mögn­un standi und­ir 60 millj­örðum.

Spurður hvort sala á Keldnalandi og umferðargjöldin séu hluti sérstakri fjármögnun upp á 60 milljarða króna svarar Bjarni:

„Nei, Keldnalandið er sérstaklega tilgreint fyrir utan það og er hluti af þessum 45 milljörðum frekar frá ríkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert