„Ég er vanur að grafa upp dautt fólk“

Thomas Jarvis er fyrir miðju á myndinni.
Thomas Jarvis er fyrir miðju á myndinni.

Þegar Stewart Would biðlaði til Facebook-hópsins Hull Trawler Group eftir upplýsingum um greftrunarstað forföður eiginkonu sinnar kom rafmagnsverkfræðingurinn austfirski Trausti Traustason til bjargar.

Thomas Jarvis var ásamt ellefu öðrum mönnum um borð í breska fiskitogaranum Kingfisher úti fyrir suðurströnd Íslands þegar skipið fórst þann 22. apríl 1912 við Skógarsand. Fjölskylda Jarvis vissi aldrei hvað varð að jarðneskum leifum hásetans sem var 21 árs þegar hann lést. Núna er fjölskyldan þó nokkuð nær því að fá svör við spurningum sínum, en með ítarlegri heimildarvinnu er Trausti nálægt því að festa hendur á hvar jarðneskar leifar Jarvis liggja. 

„Málið snýst um það að togarinn Kingfisher frá Hull strandar á Skógarsandi rétt vestan við Jökulsá. Ég ákvað að kíkja aðeins á þetta og fór að skoða fréttir frá þessum tíma og það virtist sem allir hefðu farist en svo stóð í annarri frétt að sex hafi skolað á land. Ég hef verið að reyna að hafa upp á því hvar þeir voru grafnir þessir sex,“ segir Trausti í samtali bið mbl.is. 

Grúskaði í gömlum kirkjubókum

Trausti Traustason.
Trausti Traustason. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er svona að nálgast lausnina. Í Holtsprestkalli undir Austur-Eyjafjöllum koma þeir fyrir í kirkjubók. Í kirkjubókinni frá 1912 kemur fram að 6. júní hafi tveir verið grafnir og í bókinni segir: enskur maður, rak af sjó á Merkurfjöru og Dalsfjöru. Síðar kemur útlendur maður, grafinn 26. júní og ekki meira um hann. Það verður að teljast mjög líklegt að þetta hafi verið þeir. 

„Ég hringdi í bóndann að Ásólfsskála sem hefur verið þarna alla sína tíð og mundi nú eftir að hafa heyrt af þessu strandi en gat nú ekki frætt mig um hvar þeir voru grafnir. Þarna var búið að leggja af kirkjugarðinn í Holti en hann var að velta fyrir sér hvort að líkin hafi verið flutt í Ásólfsskála og grafin þar, eða í Stóradal. Hann taldi að það hafi verið styttra úr þessum fjörum í Stóradal heldur en í Ásólfsskála, þær eru það vestarlega þessar fjörur,“ segir Trausti en honum hefur enn ekki tekist að komast að því hvar fjörurnar eru nákvæmlega. 

Vanur að grafa upp dautt fólk

Trausti segir að Þórður Tómasson, safnvörður á Skógum og Baldur Björnsson bóndi séu hans helsta von í að komast að því hvar mennirnir ungu voru jarðsettir. 

„Ég á eftir að fara í kirkjubækur áfram vestur, í Landeyjum og Vestmannaeyjum og fleira. Straumurinn liggur vestur eftir ströndinni. Ég ætla bara að halda áfram að leita bæði eftir heimildum og eins í kirkjubókum. Ég ætla að hringja í þá Þórð Tómasson í Skógum og Baldur Björnsson bónda. Þeir eru eins og staðan er núna helsta vonin. Ef einhver veit hvar þeir voru jarðaðir er það Þórður,“ segir Trausti. Hann segist halda að Stewart og fjölskylda vilji komast að greftrunarstað forföðurins til að heimsækja hann. 

Togarinn Kingfisher.
Togarinn Kingfisher.

Trausti er ekki óvanur því að grafa sig í kirkjubækur og aldargamlar blaðagreinar. 

„Ég er í þessu alla daga. Ég er aðallega að tína saman fólk sem bjó á Norðausturlandi fyrir 200 árum og þar í kring, ná saman æviferð og ferli. Ef það kemur upp eitthvað svona sem þarf að finna og leita af þá grufla ég í því. Þannig að ég er vanur að grafa upp dautt fólk eins og ég orða það,“ segir Trausti kíminn.mbl.is