Búnaður og áhöfn til sýnis

Þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands sýnir hér búnað sinn á skemmtilegan hátt, …
Þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands sýnir hér búnað sinn á skemmtilegan hátt, allt frá froskalöppum til flókins tölvubúnaðar og hjartastuðtækis. mbl.is/Árni Sæberg

Eitt nýjasta æðið á netinu, Tetris-áskorunin svokallaða, hefur nú náð hingað til lands. Er það þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands sem hér sést ásamt búnaði sínum í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands, segir gjörninginn fyrst hafa byrjað í september síðastliðnum.

„Þetta er mikið æði sem hófst fyrir fáeinum vikum og hafa nú fjölmargar sveitir víða um heim tekið þátt, en þá stilla menn sér upp með öllum sínum búnaði líkt og um Tetris-spil væri að ræða,“ segir Ásgeir og bætir við að hann telji víst að Landhelgisgæslan sé fyrst til þess að taka þátt í æðinu hér á landi.

Lögreglan í Sviss hóf þetta mikla æði með þessari mynd …
Lögreglan í Sviss hóf þetta mikla æði með þessari mynd í september. Ljósmynd/Lögreglan í Sviss

Á meðfylgjandi mynd má sjá björgunarþyrluna TF-EIR, sem er af gerðinni Airbus H225, búnað áhafnarinnar og loks áhöfnina sjálfa. Eru þetta frá hægri þeir Sigurður Ásgeirsson flugstjóri, Jóhannes Jóhannesson flugmaður, Elvar Steinn Þorvaldsson, sig- og stýrimaður, Kristján Björn Arnar spilmaður og Magnús Pálmar Jónsson, stýri- og sigmaður.

„Þetta er mjög skemmtilegt æði, nú er bara tímaspursmál hvenær lögreglan og slökkvilið taka þátt,“ segir Ásgeir og hlær við.

Uppátækið hófst í Sviss

Þennan óvenjulega gjörning má rekja til tveggja lögreglumanna í Zürich í Sviss sem 1. september sl. birtu ljósmynd á Facebook og Instagram sem sýnir þá ásamt öllum búnaði liggja við hlið lögreglubifreiðar. Síðan þá hafa fjölmargar starfsstéttir birt sambærilegar myndir á netinu, m.a. hermenn frá Bandaríkjunum, slökkviliðsmenn frá Ítalíu, flugmenn frá Hollandi og sjúkraflutningamenn frá Kanada.

Nær daglega bætast nýjar myndir í hópinn frá öllum heimshornum, en áhugasamir geta leitað að myndum á samfélagsmiðlum undir leitarorðinu „Tetris Challenge“.

Hermenn á Minot-herflugvellinum í Bandaríkjunum tóku einnig þátt.
Hermenn á Minot-herflugvellinum í Bandaríkjunum tóku einnig þátt. Ljósmynd/Flugher Bandaríkjanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »