Enginn hámarksfjöldi æfingatíma

Í fótbolta. Íslensk börn njóta að öllu jöfnu leiðsagnar menntaðra …
Í fótbolta. Íslensk börn njóta að öllu jöfnu leiðsagnar menntaðra þjálfara. Rax / Ragnar Axelsson

Embætti landlæknis bendir á að börn og unglingar ættu að hreyfa sig að lágmarki 60 mínútur á dag, hins vegar eru ekki til viðmið um hámarksfjölda æfingatíma í viku hjá börnum og ungmennum. Langflestir þjálfarar sem eru starfandi hér á landi hafa sótt þjálfaranámskeið sem er gjörólíkt því sem þekkist víða erlendis. Þetta segir Ragnhildur Skúladóttir,sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ÍSÍ.

Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um niðurstöður meistararitgerðar Nadiu Margrétar Jamchi sjúkraþjálfara þar sem skoðaðar eru niðurstöður erlendra rannsókna á áhrifum mikillar íþróttaþjálfunar á börn. Þar kemur m.a. fram að álagsmeiðsli og einkenni ofþjálfunarheilkennis meðal barna sem stundi íþróttir séu algengari en ásættanlegt megi telja. Mögulega verði börn fyrir of mikilli utanaðkomandi  pressu um að einblína á eina íþrótt og að vísbendingar séu á milli ofþjálfunar og kulnunar. 

Ragnhildur segir að það skapi Íslandi sérstöðu að allflest börn í nánast öllum íþróttagreinum njóti leiðsagnar menntaðra þjálfara og að það ætti að minnka líkurnar á of miklu álagi og meiðslum. „Víða erlendis, m.a. á hinum Norðurlöndunum, er algengt að foreldrar sjái meira eða minna um þjálfun hjá yngri krökkum. Það er nánast óþekkt hérna,“ segir Ragnhildur.

Í áðurnefndri umfjöllun Morgunblaðsins er vísað til rannsókna sem gefa til kynna að hugsanlega sé pressa á að að börn sérhæfi sig í einni íþrótt frá unga aldri í því skyni að ná sem bestum árangri. Ragnhildur segir það vera sína tilfinningu að það hafi aukist að börn æfi einungis eina íþrótt, áður fyrr hafi verið auðveldara að æfa tvær eða fleiri greinar þar sem æfingar voru færri í viku og færri íþróttagreinar voru heilsársgreinar sem gaf meiri möguleika á að æfa fleiri greinar yfir árið. „Sérhæfingin er orðin meiri og það hefur breyst undanfarin ár; börn í dag æfa frekar eina grein oftar í viku en fleiri greinar sjaldnar í viku.“

Ragnhildur segir að í þessu sambandi skipti ábyrgð foreldra mestu máli. Að þeir grípi inn í þyki þeim æfingaálag vera of mikið. Þá sé brýnt að senda börn sín ekki meidd á æfingar. 

Spurð hvort komið hafi til tals innan ÍSÍ að leggja til eitthvern hámarksfjölda klukkustunda á viku sem börn ættu að æfa segir hún svo ekki vera. „Ég er ekki viss um hvort það væri skynsamlegt eða á hvaða forsendum ætti að setja slíkt viðmið. Eðli íþróttagreinanna og álag getur verið svo mismunandi - það er hægt að reyna meira á sig á hálftíma en á tveimur tímum.  Það ætti fyrst og fremst að leggja áherslu á að sem flest börn fái sem fjölbreyttasta hreyfingu og það er hægt að gera innan sömu íþróttagreinarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert