Báturinn mikið skemmdur eftir eldsvoðann

Betur fór en á horfðist í fyrstu þar sem hægt …
Betur fór en á horfðist í fyrstu þar sem hægt var að draga bátinn út úr húsinu. mbl.is/​Gunn­laug­ur Árna­son

„Þetta var heilmikið mál og báturinn er mikið skemmdur. Það bjargaði þessu að það var hægt að draga hann út úr húsinu,“  segir Álfgeir Marinósson, slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi, í samtali við mbl.is um eldsvoðann sem kom upp í bát í slippnum í Stykkishólmi fyrr í dag.

Báturinn, Vest­ur­borg ÍS 320 frá Suður­eyri, var í viðgerð hjá Skipavík hf. í Stykkishólmi og voru nokkrir menn að vinna í bátnum eða við hann þegar eldurinn kom upp. Engum varð þó meint af.

Slökkviliðið á Stykkishólmi kom fljótt á vettvang eftir að útkall barst. Slökkvilið Grundafjarðar og Snæfellsbæjar voru kölluð út til að aðstoða ef eldurinn hefði náð að berast í húsnæðið en sem betur fer varð það ekki raunin og einu skemmdirnar á húsnæði voru vegna reyks.

Rannsókn málsins er komin í hendur lögreglunnar í Stykkishólmi.

Báturinn var í viðgerð þegar eldurinn kom upp.
Báturinn var í viðgerð þegar eldurinn kom upp. mbl.is/​Gunn­laug­ur Árna­son
mbl.is