Gangandi veitt falskt öryggi vikum saman

Gangbrautirnar í Hlíðahverfi leiða vegfarendur einungis hálfa leið, með tilheyrandi …
Gangbrautirnar í Hlíðahverfi leiða vegfarendur einungis hálfa leið, með tilheyrandi slysahættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Hlíðahverfi í Reykjavík, nánar tiltekið á Lönguhlíð milli Miklubrautar og Eskitorgs, má finna þrjár hálfkláraðar gangbrautir ætlaðar gangandi vegfarendum. Vinna við verkið hófst snemma í haust en lauk aldrei.

Ólafur Kr. Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaröryggismálum, segist aldrei hafa séð önnur eins vinnubrögð. Gangbrautum sé ætlað að auka öryggi gangandi vegfarenda sem þvera þurfi akbrautir. Í þessu tilfelli sé aftur á móti um að ræða „falskt öryggi“ í miðju íbúðahverfi.

„Að menn skuli setja þarna niður þrjár hálfar sebrabrautir er með ólíkindum. Þetta sýnir ágætlega hvernig umferðarmálum er háttað í Reykjavík, menn geta ekki einu sinni sett niður gangbraut án þess að klúðra því,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið, en gangbrautirnar hafa staðið hálfkláraðar vikum saman með tilheyrandi slysahættu.

Til að gangandi vegfarendur njóti forgangs á gangbrautum er nauðsynlegt að við þær standi gangbrautarskilti. Slíkt er þó ekki til staðar við hálfu brautirnar í Hlíðunum.

„Þetta eru kolólöglegar gangbrautir. Það er sebri þarna sem gefur til kynna að óhætt sé að ganga yfir en á sama tíma eru bílstjórar aldrei varaðir við með skiltum,“ segir Ólafur og bætir við að gangbrautirnar þrjár geti auðveldlega valdið ruglingi hjá gangandi vegfarendum, einkum börnum og sjónskertum, en frá þessum stað er stutt í Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra, tvo skóla og leikskóla.

Þá segir Ólafur að við eina af þessum þremur gangbrautum megi finna hraðahindrun á röngum stað.

„Það er líka „strætókoddi“ öfugum megin við eina af þessum gangbrautum,“ segir hann.

Óásættanlegt fyrir fólk

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs, segir verkið hafa tafist vegna mistaka. Var framkvæmdin aldrei auglýst í Stjórnartíðindum í samræmi við lög. „Verkið var stoppað tímabundið. Vonandi fer þetta aftur af stað á næstu vikum,“ segir hún. „Okkur þykir þetta leitt enda er þetta óásættanlegt fyrir öryggi gangandi vegfarenda í þessu hverfi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert