Alltaf gott þegar samningar nást

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/​Hari

„Það er að sjálfsögðu alltaf gott þegar samningar nást,“ segir Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, formaður BHM. Kjarasamningur á milli fimm aðildarfélaga Banda­lags há­skóla­manna og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra fyr­ir hönd rík­is­sjóðs var undirritaður á fjórða tímanum aðfaranótt mánudags. 

Fé­lög­in sem um ræðir eru: Fé­lag há­skóla­menntaðra starfs­manna Stjórn­ar­ráðsins, Fé­lag ís­lenskra fé­lags­vís­inda­manna, Fræðagarður, Stétt­ar­fé­lag bóka­safns- og upp­lýs­inga­fræðinga og Stétt­ar­fé­lag lög­fræðinga. Samningurinn gildir til 21. mars 2023. 

„Það er í höndum félagsmanna að afgreiða niðurstöðuna og formenn félaganna munu tala fyrir henni,“ segir Þórunn um samningana. Hún kveðst að öðru leyti ekki geta tjáð sig um innihald samningsins. 

Kjarasamningar félaganna losnuðu 1. apríl en hlé var gert á viðræðum í sumar. Þórunn bendir á að þetta sé langur tími. 

Kjaradeilunni hafði ekki verið vísað til ríkissáttasemjara en samningsaðilar fengu …
Kjaradeilunni hafði ekki verið vísað til ríkissáttasemjara en samningsaðilar fengu aðstöðu hjá embættinu vegna kjaraviðræðnanna. mbl.is/Golli

Um var að ræða fyrstu fimm aðildarfélög BHM af 21 sem semja við ríkið. Ekki er um eiginlegt samflot félaga að ræða heldur er samningsumboðið í höndum aðildarfélaga hjá BHM nema annað sé ákveðið. Þórunn bendir á að félögin vinni saman í hópum eftir því sem þau telja að henti. 

„Það mun sjálfsagt vera þannig að hin félögin kynni sér vel um hvað þessi fimm félög sömdu. Það liggur í hlutarins eðli en hvað þau gera í framhaldinu er algjörlega í þeirra höndum,“ segir Þórunn og bætir við að aðildarfélögin sem sömdu aðfaranótt mánudags séu farin að kynna samninginn fyrir sínu félagsfólki:

„Félagsfólk mun greiða atkvæði um samninginn á næstu dögum.“

mbl.is