Átta milljónir í styrk og 60% mánaðarlauna

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Samningur Seðlabankans við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, um stuðning við námsdvöl hennar við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum kvað á um styrk upp á 8 milljónir króna vegna skólagjalda, bóka- og ferðakostnaðar og greiðslu 60% mánaðarlauna í tólf mánuði.

Þetta kemur fram í samningnum sem Seðlabankinn hefur gert opinberan í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjaness fyrr í þessum mánuði um að bankanum bæri að afhenda hann blaðamanni Fréttablaðsins. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum vegna málsins að hann hyggist ekki áfrýja niðurstöðunni til Landsréttar.

Fréttablaðið segir að Ingibjörg, sem stundaðu umrætt nám við Harvard-háskóla á árunum 2016-2017, hafi haft um 1,4 milljónir króna í mánaðarlaun og því sé um að ræða heildarupphæð upp á um 18 milljónir króna. Fram kemur enn fremur í samningnum að Ingibjörg fái leyfi frá stöfum á meðan á náminu stendur.

Þá segir í samningnum að fari svo að Ingibjörg „kjósi að starfa á öðrum vettvangi að námi loknu og snúi ekki aftur til starfa hjá bankanum, mun bankinn ekki eiga neina endurkröfu vegna ofangreinds styrks vegna skólagjalda og vegna launa, á meðan á námsleyfi stendur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina