Engum sagt upp vegna skólasameininga

Í skóla. Sameining grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi er umdeild.
Í skóla. Sameining grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi er umdeild. Haraldur Jónasson / Hari

Engar uppsagnir á fólki eru fyrirhugaðar í tengslum við hugsanlega lokun Kelduskóla Korpu í Grafarvogi. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Hann segir fullan skilning vera á óánægju foreldra með lokunina og áréttar að enn sé eingöngu um tillögu að ræða sem gæti tekið breytingum.

Í gær birtist fréttatilkynning á vefsíðu Reykjavíkurborgar um að meirihlutinn í skóla- og frístundaráði borgarinnar hefði lagt fram tillögu um breytingar í norðanverðum Grafarvogi. 

Tillagan felur í sér að tveir skólar í norðanverðum Grafarvogi verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk í Borgaskóla og Engjaskóla og einn sameiginlegur skóli, Víkurskóli, verði fyrir 8.- 10. bekk. „Skólahald í Korpu leggst af, a.m.k. tímabundið, en nemendum verður boðin skólavist í Engjaskóla, þar sem öll yngri skólabörnin úr Staðahverfi sameinast, og tryggður skólaakstur eða strætókort til frjálsra afnota, þar til fjöldi nemenda í Staðahverfi á aldrinum 6-12 ára hefur náð tölunni 150,“ segir í tilkynningunni.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Verði þessi tillaga samþykkt, ganga breytingarnar í gildi næsta haust. 

Segir breytingarnar í faglegum tilgangi

Í kjölfarið lýstu margir yfir óánægju með þessi áform, m.a. foreldrar barna í Kelduskóla Korpu sem sjá fram á að börn þeirra þurfi að sækja skóla um talsvert lengri veg en áður. Helgi segist hafa fullan skilning á þessari afstöðu foreldra. „Mér finnst þetta mjög eðlilegt. Fólk verður óöruggt þegar breytingar sem þessar eru kynntar. Við reynum allt sem við getum til að draga úr þessu, m.a. með upplýsingagjöf og umræðu,“ segir Helgi. „En það verður að hafa í huga að þessar breytingar eru aðallega gerðar í faglegum tilgangi; til að styrkja skólastarf. Við teljum okkur vera að skapa traustara skóla- og frístundastarf en nú er.“

Allt að tveggja km leið í skólann

Hann segir að lengsta vegalengd sem barn þurfi að fara eftir breytingarnar í skólann verði um tveir kílómetrar. Spurður hvort til séu viðmið um hversu langan veg börn eigi að sækja skóla segir hann svo ekki vera, en Reykjavíkurborg hafi miðað við 1,5 kílómetra fyrir yngri börn og tvo km fyrir eldri börn þegar komi að úthlutun strætókorta til að sækja skóla. „En við erum með tillögu um að vegalengdin verði 1,5 kílómetrar fyrir öll börn óháð aldri,“ segir Helgi.

Frá fundi um málið í vor.
Frá fundi um málið í vor. Ljósmynd/Aðsend

Gagnrýnt hefur verið að lítið stoði að láta börnin fá strætókort þar sem strætó gangi ekki að skólunum. Helgi segir að vagnar gangi á milli Staðahverfis og Engjaskóla. „Strætóleiðin að Víkurskóla er ekki jafn hagstæð, en við erum í samtali við Strætó og samgöngustjóra borgarinnar um breytingar þar á. Verið er að skoða hvort hægt sé að setja stoppistöð á mótum Korpúlfsstaðavegar og Víkurvegar,“ segir hann. Verið sé að huga að tillögum að öðrum samgöngubótum og auknu umferðaröryggi.

Engar fleiri sameiningar fyrirhugaðar

Í áðurnefndri tilkynningu á vef borgarinnar segir að spara eigi 200 milljónir á ári með þessari breytingu. Spurður hvernig sú upphæð sé fengin út segir Helgi að hann felist m.a. í húsnæðiskostnaði, en innri leiga sé stór hluti þessarar upphæðar. „Síðan sparast fastur rekstrarkostnaður og launakostnaður, en við áætlum að það fækki um innan við tíu stöðugildi í skóla- og frístundastarfi við þessa breytingu.“

Verður fólki sagt upp vegna þessa? „Nei, það verður ekki. Við gerum ráð fyrir því að þetta jafnist út vegna eðlilegrar starfsmannaveltu sem er á skóla- og frístundasviði.“

Eru fleiri sameiningar grunnskóla fyrirhugaðar í Reykjavík? „Nei, ekkert slíkt er á teikniborðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert