Forréttindi að „fá ofurlaun í smástund“

Elvar Eyvindsson, varaþingmaður Miðflokksins, taldi upp hin ýmsu forréttindi sem …
Elvar Eyvindsson, varaþingmaður Miðflokksins, taldi upp hin ýmsu forréttindi sem fylgja því að taka sæti á Alþingi, svo sem að „fá ofurlaun í smástund“. Skjáskot/Alþingi

Elvar Eyvindsson, varaþingmaður Miðflokksins, segir það forréttindi að taka sæti á Alþingi. Hann hefur verið varaþingmaður í á aðra viku og kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins eftir hádegi. „Það eru ákveðin forréttindi að fá að koma svona inn, kynnast þessu starfi, taka þátt, mögulega hafa smá áhrif og fá ofurlaun í smástund. Það eru einnig ákveðin forréttindi að sleppa út aftur og hverfa í sitt meginlíf,“ sagði Elvar. 

Peningar voru einmitt megin inntak ræðu varaþingmannsins, sem hefur setið í fjárlaganefnd sem varaþingmaður og hlustað á umsagnir ýmissa aðila. „ Allir þurfa meira fjármagn og allir þurfa að fá sköttum aflétt. Allir hafa sögu að segja um það sem mætti betur fara og oft er það um eitthvað sem mætti fara miklu betur,“ sagði Elvar. 

Sérsveit fjármálaráðherra?

Hann talaði einnig um „vitleysuna í kerfinu“ og sagði að eftir veru sína í fjárlaganefnd væri hann helst á því að það vanti ekki peninga heldur þurfi að fara betur með þá. Fyrir það uppskar hann „heyr, heyr“ úr þingsal. 

Að lokum stakk hann upp á að sett yrði á laggirnar sérsveit í fjármálaráðuneytinu. „Mín niðurstaða er sú að stundum sé nóg að fá meira verksvit,“ sagði Elvar. Hugmynd hans er að sérsveitin hafi afmörku atriði á sinni könnu. „Þetta væri ekki sveit lögfræðinga heldur fólks sem kynni til verka í viðkomandi málaflokki og gæti rýnt í hann og lagt til alvöruúrbætur,“ sagði varaþingmaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert