Verra að lofa sífellt og svíkja það síðan

Frá Gjögri í Árneshreppi.
Frá Gjögri í Árneshreppi. mbl.is/Golli

„Það er eiginlega verra að sífellt sé verið að lofa einhverju og svíkja það síðan en að einfaldlega sé sagt að ekkert sé í boði,“ segir Jón Jónsson þjóðfræðingur og íbúi á Ströndum í samtali við mbl.is, en hann segir að íbúar á svæðinu, ekki síst í Árneshreppi, séu orðnir langþreyttir á ítrekuðum loforðum stjórnvalda í gegnum árin um vegabætur.

„Hitt felur í sér að sífellt sé verið að halda fólki heitu og í voninni en síðan gerist aldrei neitt,“ segir Jón sem hefur fjallað um þessi mál á facebooksíðu sinni undanfarna daga. Heiðarlegra sé þá að segja bara við fólk að það fái ekki neitt. Einungis tvær framkvæmdir séu á 15 ára framkvæmdaáætlun á Ströndum og báðar settar á tímabilið 2025-2029.

„Það er grátlegt að horfa upp á þetta“

Málið sé komið á það stig að sögn Jóns að hann trúi ekki orði sem stjórnmálamenn segi í þessum efnum fyrr en framkvæmdir hreinlega hefjist. „Það er ekki sjens að ég trúi þeim fyrr en framkvæmdir fara af stað. Orð þeirra hafa því miður einfaldlega reynst lítils virði.“ Hvað Árneshrepp varðar er nú ófært í hreppinn sem gerist reglulega á veturna.

„Það er grátlegt að horfa upp á þetta fyrir byggðina í Árneshreppi. Þeir hafa alltaf verið að binda vonir við þetta,“ segir Jón. Það sé jafnvel að verða of seint að gera eitthvað í málunum ef stuðla eigi að því að hægt verði að búa í hreppnum allt árið um kring. Stjórnmálamenn séu að missa af tækifærinu til þess að gera eitthvað í málinu.

Vonast til að komast á Fjórðungsþingið

„Þetta er auðvitað alveg ömurlegt ástand,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, spurð um stöðuna. „Okkur hefur verið lofað og lofað og lofað en það hefur ekkert gerst. Eins og þetta lítur út núna á ekkert að koma fyrr en eftir fimm ár.“ Framkvæmdum sem lofað hafi verið í gegnum ári hafi ítrekað verið frestað.

Mokstur í sveitarfélaginu sé núna einu sinni í viku og stundum tvisvar. Ekki sé þó hægt að stóla á seinni moksturinn. Fjórðungsþing Vestfirðinga verður haldið á Hólmavík á föstudaginn og laugardaginn og segist Eva vona að hún komist á það. Til standi að moka á föstudaginn og vonandi gangi það eftir. Veðrið sé slæmt á svæðinu núna.

Nístandi að sjá framkvæmdum frestað

Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fulltrúi flokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar, vakti athygli á stöðunni í Árneshreppi í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær. Skoraði hann á þingmenn og samgönguráðherra „að svíkja ekki Árneshrepp og Strandamenn um marglofaðar vegabætur til að tryggja heilsárssamgöngur í byggðarlagið með vegabótum um Veiðileysuháls.“

Bjarni sagði það „nístandi að sjá þeim framkvæmdum enn slegið á frest í tillögu að samgönguáætlun. Ef þingheimur kemst að þeirri kaldrifjuðu niðurstöðu er verið að slá af eitt brothættasta byggðarlag landsins, Árneshrepp. Fólkið á betra skilið.“

mbl.is