„Engin meinfýsi gagnvart Guðjóni“

Andri við fyrirtöku í málinu í dag. Hann telur enn …
Andri við fyrirtöku í málinu í dag. Hann telur enn þarft að kanna hvort Guðjón eigi rétt til bóta. Haraldur Jónasson/Hari

Andri Árna­son, sett­ur rík­is­lögmaður, bað um frest á máli Guðjóns Skarphéðinssonar á hend­ur rík­inu sem var þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un. Féllst dómari á að veita honum fjögurra vikna frest. 

Guðjón var sýknaður af ákæru í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu en hann krefst nú bóta frá ríkinu upp á 1,3 milljarð vegna gæsluvarðhalds sem honum var gert að afplána. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi vegna greiðslu bóta til Guðjóns og annarra sem sýknaðir hafa verið í sama máli. 

„Þetta var sem sagt hefðbundinn gagnaöflunarfrestur. Ég hafði í huga að það væri gott að sjá hver framvinda þessa frumvarps yrði á þingi vegna þess að þar getur þingið alla vega lýst viðhorfum sínum til þessara sjónarmiða sem koma fram í frumvarpinu. Það hefur komið fram að það sé svo til skoðunar að gera einhverjar breytingar á kröfugerðinni,“ segir Andri. 

Spurður hvort afstaða ríkisins til bótagreiðslu til Guðjóns sé allt önnur en áður en frumvarpið var lagt fram segir Andri: 

„Ekki kannski allt önnur en það eru ákveðin atriði sem við ætlum að endurskoða. Í grunninn er þetta svo sem sama málið en það er spurning um tiltekin atriði í málinu sem við ætlum að skoða.“

Andri segir að ríkið telji enn að bótakrafan sé of há. „Ekki bara í þessu tilviki heldur allar þessar kröfur. Þetta eru náttúrulega margir milljarðar þannig að við teljum að það sé óhjákvæmilegt að gæta að vörnum ríkisins.“

Ríkið lögbundið til að kanna bótarétt

Enn vill ríkið að kannað sé hvort Guðjón, og aðrir sem sýknaðir hafa verið í málinu, hafi glatað rétti sínum til bóta. 

„Það  er í lögum að menn eigi rétt á bótum og það er ekki deilt um það að sá sem hefur verið sýknaður eigi rétt á bótum. Í sömu grein segir að lækka megi bætur ef viðkomandi hefur átt sök á því að rangur dómur var kveðinn upp,“ segir Andri og heldur áfram:

„Við teljum eðlilegt að um þetta verði dæmt. Við erum ekki að segja að hann hafi glatað rétti en þetta er bara eðli kröfugerðar fyrir dómi. Ef dómari telur að viðkomandi hafi á einhvern hátt stuðlað að því að rangur dómur var kveðinn upp þó hann eigi ekki alla sökina á því þá getur það haft áhrif á bótaréttinn.“

Andri segir að ríkið sé lögbundið til að hafa þessar varnir uppi. „Þetta á ekki sérstaklega við Guðjón. Þetta er atriði sem við teljum að vert sé að sé skoðað vegna þess að þetta er lögbundið. Þetta er held ég í öllum málum af þessum toga þar sem þessu er haldið fram. Það er látið á þetta reyna og það er líka til að gæta jafnræðis svo þetta sé ekki notað gagnvart sumum og ekki öðrum. Þetta er engin meinfýsi gagnvart Guðjóni eða neitt slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert