Nýju ljósi varpað á Guðmundar- og Geirfinnsmál

Í þáttunum beinir Sigursteinn Másson meðal annars ljósi á sögu …
Í þáttunum beinir Sigursteinn Másson meðal annars ljósi á sögu Erlu Bolladóttur. Erla mátti sæta frels­is­svipt­ingu í tæpa átta mánuði í tengslum við málið. Ljósmynd/Eva Schram

Fjölmiðlamaðurinn Sigursteinn Másson segir margt hafa komið í ljós í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu þegar hann fór nýlega yfir hundruð klukkustunda viðtalsefni frá lok síðustu aldar. Hann segist bæði hafa misst eigin öryggistilfinningu og trú á réttarríkið þegar hann hóf að rannsaka sakamálið í janúar 1996.

Á morgun, mánudag, kemur út fyrsti þátturinn af heimildaþáttarröðinni Réttarmorð. Þar fjallar Sigursteinn ýtarlega um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í sex rúmlega klukkustunda þáttum sem birtir verða vikulega á Storytel.

„Þarna er um að ræða yfirgripsmeiri og nánari heildarumfjöllun um þessi þekktu sakamál heldur en áður hefur gerst í ljósvakamiðlum á Íslandi,“ segir Sigursteinn í samtali við mbl.is.

Hann rekur rekur málið frá því að áhersla yfirvalda að ná hinum svokölluðu Klúbbsmönnum mótaðist, rúmlega tveimur árum áður en sakborningarnir í sakamálinu voru handteknir, til dagsins í dag, að sögn Sigursteins.

„Þegar ég var að vinna þessu þætti þá verður málið allt saman skýrara. Það er ýmislegt sem fram til þessa hefur verið ýmist óljóst, óskýrt eða einhvern veginn í lausu lofti sem maður er að ná betur utan um í þessari umfjöllun.“

Missti trúna á réttarríkið

Sigursteinn fór fyrst að rannsaka Guðmundar- og Geirfinnsmálið í janúar 1996 þegar Sævar Ciesielski lét hann hafa öll gögn sem hann hafði um málið og bað Sigurstein um að skoða það. Úr urðu heimildaþættir um málið.

„Þetta hafði mjög mikil áhrif á mína tilveru. Þegar ég áttaði mig á alvarleika þessara mála þá missti ég öryggistilfinninguna persónulega sjálfur. Ég missti trúna á réttarríkið hér og ég missti trúna á að maður gæti verið öruggur sem borgari hér gagnvart yfirvöldum án þess að yfirvöldin myndu hafa óeðlileg afskipti af manni.

Þetta var ansi afdrífarík ákvörðun að fara út í þessa rannsókn á sínum tíma og undirbúning á þáttagerð. Ég sé alls ekki eftir því, alls ekki á nokkurn hátt, en þetta breytti minni sýn á íslenskt réttarríki,“ segir Sigursteinn.

Sigursteinn Másson.
Sigursteinn Másson. Ljósmynd/Eva Schram

Áður óbirt viðtöl

Sigursteinn segir margt hafa komið í ljós þegar hann fór á ný yfir hundruð klukkustunda efni af tugum viðtala sem hann tók á árunum 1996 og 1997.

„Ég er að birta mikið af viðtalsbútum við fólk sem ýmist er lífs eða liðið, sem ekki voru birtir á sínum tíma,“ segir Sigursteinn.

„Ég myndi segja að það sé verið að varpa nýju ljósi á málin í þessum þáttum. Ég held að ég geti fullyrt það að með þessari umfjöllun eigi öllum að vera ljóst að hér er um að ræða einstakt sakamál á heimsvísu.“

Á morgun, mánudag, kemur út fyrsti þátturinn af heimildaþáttarröðinni Réttarmorð.
Á morgun, mánudag, kemur út fyrsti þátturinn af heimildaþáttarröðinni Réttarmorð. Ljósmynd/Storytel
mbl.is
Loka