Ríkið unir dómi héraðsdóms í máli barna Sævars

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið fyrir hönd ríkisins að una dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja barna Sævars Ciesielski gegn íslenska ríkinu. Sá fyrirvari er þó að ef þau áfrýja áskilur ríkið sér rétt til gagnáfrýjunar.

Málið var rætt á fundi ríkisstjórnar í morgun, að því er segir í tilkynningu.

Með dómi héraðsdóms þann 24. mars síðastliðinn voru bætur barna Sævars Ciesielski, hvors um sig, hækkaðar úr 47,8 milljónum króna í 77 milljónir.

Reynist héraðsdómurinn endanlegur hefur forsætisráðherra í hyggju að bjóða þremur öðrum börnum Sævars, sem ekki áttu aðild að dómsmálinu, sömu hækkun bótafjárhæðar.

Jafnræðisrök leiða að því að þar sem ríkið hyggist una niðurstöðu héraðsdóms eigi það sama að gilda um dánarbú Tryggva Rúnars Leifssonar. Mál dánarbúsins er fyrir Hæstarétti og mun forsætisráðherra bjóða fram sátt í málinu áður en til málflutnings kemur, segir í tilkynningunni.

Landsréttur hækkaði með dómi í desember síðastliðnum bætur til Guðjóns Skarphéðinssonar og dánarbús Kristjáns Viðars Júlíussonar.

Með lögum nr. 128/2019 var forsætisráðherra veitt heimild til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Sú heimild féll úr gildi 30. júní 2020 en ekki er talin þörf á því að framlengja heimildina með lagabreytingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert