Hagsmunir ríkisins að ljúka máli Erlu

Erla Bolladóttir fékk 32 milljónir króna í bætur vegna gæsluvarðhalds …
Erla Bolladóttir fékk 32 milljónir króna í bætur vegna gæsluvarðhalds sem hún þurfti að sæta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í minnisblaði til forsætisráðherra segir að ríkinu sé ekki skylt að bera fyrir sig fyrningu og í máli Erlu Bolladóttur séu það hagsmunir ríkisins að gera það ekki. Það hafi þó þurft að vera rökstutt sérstaklega með tilliti til óvenjulegra aðstæðna sem eru ekki líklegar til að skapa almennt fordæmi. 

Í gær var tilkynnt um að samkomulag hafi náðst milli íslenska ríkisins og Erlu Bolladóttur vegna gæsluvarðhalds sem Erla sætti fyrir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Erla var sýknuð af þeim ákærum í Hæstarétti 1980 en hún mátti sæta frelsissviptingu í tæpa átta mánuði vegna málsins.

Í minnisblaðinu sem sent var frá skrifstofu stjórnskipunar og stjórnsýslu til forsætisráðherra 16. desember síðastliðinn segir:

„Ljóst er að þótt ríkið beri jafnan fyrir sig fyrningu þegar það á við er ríkinu ekki skylt að gera það. Í máli Erlu má færa rök fyrir því að hagsmunir ríkisins standi beinlínis til þess að bera ekki fyrir sig fyrningu sökum þess hve mikilvægt má telja að ljúka Guðmundar- og Geirfinnsmálinu gagnvart þeim sem hafa átt um sárt að binda vegna þess.“

Þar segir einnig að mikivægt sé að ef samkomulag náist við Erlu grundvallist það á því hve einstakt málið sé til að skapa ekki óæskilegt fordæmi gagnvart öðrum sem eru í svipaðri réttarstöðu.

Erla kæri ekki úrskurðinn til MDE

Samkvæmt samkomulaginu sem gert var við Erlu greiðir íslenska ríkið Erlu miskabætur fyrir gæsluvarðhaldið á sama grundvelli og sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmdar í Landsrétti.

Nemur fjárhæð miskabótanna um 32 milljónum króna en fjárhæðin tekur mið af þeim bótum sem Landsréttur ákvarðaði fyrir gæsluvarðhald í fyrrnefndum dómum. Alls sat Erla í gæsluvarðhaldi í 232 daga í tengslum við meinta aðild sína að hvarfi Geirfinns.

Í samkomulaginu er einnig gengið úr skugga um að málinu sé nú lokið gagnvart Erlu en þar segir: „Erla lýsir því yfir að hún muni ekki kæra úrskurð Endurupptökudómstóls í máli nt. 8/2022 til Mannréttindadómstóls Evrópu.“

Mál Sigurðar verði tekið fyrir

Í minnisblaðinu segir að eðlilegt sé að skoða mál Sigurðar Óttars Hreinssonar ef sátt myndi nást við Erlu. Bætur til hans myndu nema rúmlega þremur milljónum króna ef sama reikniaðferð yrði lögð til grundvallar og hjá Erlu.

Sigurður sat í gæsluvarðhaldi í um það vil einn mánuð í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hann sendi ríkinu bótakröfu vegna þessa haustið 2018, en þeirri kröfu var hafnað með svipuðum rökum og kröfu Erlu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert